Fréttir

Astma og langvarandi berkjubólga tengjast hreinsiefnum sem notuð eru við ræstingar

9.12.2005Konum sem fást við ræstingar hættir fremur en öðrum til að fá öndunarfærasjúkdóma, s.s. astma og langvarandi berkjubólgu samkvæmt rannsókn sem birtist nýlega í Occupational and Environmental Medicine (M. Medina-Ramón og félagar, Occup Environ Med 2005; 62:598-606). Ræstingakonur eru útsettar fyrir fjölda efna og efnasambanda sem geta ert öndunarfærin. Astmi hjá ræstingakonum tengdist tíðri notkun á bleikiefnum og ef til vill öðrum hreinsiefnum. Oft á tíðum anda konurnar að sér miklu magni þessara efna fyrir einhvers konar slysni.

Rannsakendur benda á að ræstingar séu algeng atvinnugrein kvenna víða um lönd en afleiðingar þess að anda að sér hreinsiefnum, sem notuð eru við ræstingar, hafi lítið verið rannsakaðar. Ástæður þess geti m.a. verið að áhættuþáttum í vinnuumhverfi kvenna hafi yfirleitt verið lítill gaumur gefinn, þar á ofan starfi ræstingakonur oft í heimahúsum utan kerfisins og séu ekki í stéttarfélagi. Þótt í þessari rannsókn sé fyrst og fremst litið til öndunarfærasjúkdóma sé líklegt að ýmislegt annað hrjái þennan starfshóp s.s. verkir í stoðkerfi, húðsjúkdómar og andlegir kvillar.
 Bent er á að ýmiss konar hreinsiefni sem geti verið heilsuspillandi séu í notkun hjá ýmsum öðrum hópum svo sem hjá hjúkrunarfólki og öðrum í umönnunarstörfum, og í heimahúsum þegar fólk er að þrífa eigið húsnæði.

Í annarri grein í Occupational and Environmental Medicine (J P Zock, 2005; 62;581-584) er einnig fjallað um áhættuþætti í vinnuumhverfi ræstingafólks. Bent er á að áhætta geti tengst verkefnunum og verkfærunum sem notuð eru, hreinsiefnunum og vinnuumhverfinu. Ræstingafólki séu falin ýmis verkefni önnur en að þrífa svo sem að henda rusli sem stundum sé mengað hættulegum efnum og því sé oft gert að starfa utan reglulegs vinnutíma þegar aðstæður á vinnustaðnum séu oft á tíðum verri en á venjubundnum starfstíma. Stundum þurfi fólk að þrífa með varasömum efnum í húsnæði þar sem loftræsting er ekki nógu góð. Ennfremur hyllist fólk til að blanda saman hreinsiefnum í þeirri trú að þá virki þau fyrr og betur en oft sé þetta varasamt.


 Líkamlegt álag í ræstingum getur verið mikið og verkfæri ekki við hæfi hvers og eins. Ræstingafólk þurfi oft að vinna eitt og sé þannig útilokað frá félagsskap á vinnustað. Því sé úthlutað verkefnum sem séu einhæf og lítill möguleiki á sjálfræði í starfi. Í þessari grein er bent á mörg úrræði til að bæta starfsaðstæður ræstingafólks. Blöðin, sem vitnað er til, eru keypt til bókasafns Vinnueftirlitsins.

hkg@ver.is