Fréttir

Ánægja með reykingabannið meðal starfsfólks

10.7.2008

Meirihluti svarenda í könnun, sem Vinnueftirlitið gerði í desember 2007 meðal starfsfólks á veitinga-, gisti- og skemmtistöðum, var ánægður með reykingabannið sem gekk í gildi 1. júní 2007. Könnunin var gerð í samvinnu við Rannsóknastofu í vinnuvernd og með styrk frá Lýðheilsustöð.

Spurningalisti var sendur á netföng veitinga-, gisti- og skemmtistaða í desember 2007. Svör bárust frá 71 aðila og var svarhlutfall um 17%. Fleiri konur en karlar svöruðu könnuninni.
Meirihluti þátttakenda var hlynntur reykingabanninu þótt um helmingur þeirra, sem svöruðu, reyki daglega eða stundum. Flestir telja að banninu sé vel fylgt eftir á vinnustöðunum bæði af starfsfólki og gestum. Meirihluti svarenda segir að auðveldara sé að halda vinnustöðunum hreinum eftir reykingabannið og að vinnufatnaðurinn sé laus við reykingalykt en telur að fleiri sígarettustubbar séu fyrir utan staðina en áður var. Víðast hefur ekki verið gripið til neinna sérstakra úrræða fyrir reykingafólk. Meirihlutinn telur að fjöldi gesta sé svipaður og fyrir bann. Um það bil helmingur þátttakenda segir að vinnuumhverfið hafi batnað eftir að reykingabannið tók gildi, næstflestir að það sé svipað og áður og nokkrum finnst það hafa versnað. Þetta gæti endurspeglað fjölda reykingamanna í svöruninni.
Efnt var til happdrættis meðal þátttakenda og var vinningurinn ferð fyrir tvo til einhvers áfangastaða Iceland Express í Evrópu. Vinningshafinn að þessu sinni er María Bryndís Ólafsdóttir hótelstýra á Hótel Stykkishólmi.
Skýrsluna má nálgast hér: Viðhorf og líðan starfsfólks á veitinga-, gisti- og skemmtistöðum eftir að reykingabann tók gildi, 1. júní 2007