Fréttir

Ályktun stjórnar Vinnueftirlitsins - Vinnuvernd og tóbaksvarnir á vinnustöðum

17.3.2005

Öllum má vera ljós sú hætta er stafar af óbeinum reykingum. Óbeinar reykingar auka líkur fólks á að fá ýmiss konar krabbamein, hjarta- og öndunarfærasjúkdóma auk þess að vera því til almennra óþæginda. Óbeinar reykingar eru mesti krabbameinsvaldur á vinnustöðum í hinum vestræna heimi. Á Íslandi hafa reykingar verið bannaðar á öllum vinnustöðum nema á veitinga- og skemmtistöðum. Vinnuverndarlögin eru skýr en þar er kveðið á um að allt starfsfólk eigi rétt á heilsusamlegu og öruggu starfsumhverfi. Óeðlilegt er að undanskilja eina starfstétt, líkt og gert er í lögum um tóbaksvarnir, en vinnuumhverfi mengað af tóbaksreyk uppfyllir ekki kröfur um heilsusamlegt og öruggt starfsumhverfi.

Leiðrétta þarf þetta augljósa misræmi milli vinnuverndarlaga og tóbaksvarnarlaga. Með þessari ályktun skorar stjórn Vinnueftirlitsins á heilbrigðisráðherra að hann beiti sér fyrir því að tóbaksvarnarlög séu samræmd vinnuverndarlögunum og reykingar verði bannaðar á öllum vinnustöðum á Íslandi án undantekninga. Allir eiga rétt á að vinna í reyklausu starfsumhverfi. Þessi skref hafa þegar verið stigin af nokkrum Evrópuþjóðum en Ísland hefur löngum þótt skara fram úr í tóbaksvörnum og því er mál að Íslendingar feti í fótspor þeirra þjóða sem þegar hafa bannað reykingar á veitinga- og skemmtistöðum.

Með því að banna reykingar á veitinga- og skemmtistöðum er stórum vinnuverndaráfanga náð.

Ályktunin var samþykkt á stjórnarfundi Vinnueftirlitsins þann 14. mars sl. með sex atkvæðum gegn tveimur atkvæðum Samtaka atvinnulífsins.