Fréttir

Aldur starfsmanna í sundlaugum

29.6.2007

Af gefnu tilefni og umræðu um öryggi á sundstöðum er vakin athygli á að í Reglum um öryggi á sundstöðum og við kennslulaugar  í kafla 3 um Laugargæslu, grein 3.7 stendur: "Þeir sem sækja um starf við sundstaði skulu hafa náð 18 ára aldri og leggja fram heilbrigðisvottorð með umsókn sinni".

Í reglugerð nr. 426/1999 um vinnu barna og unglinga er kveðið á um hvaða störfum ungmenni megi gegna. Í reglugerðinni kemur fram að ungmenni undir 18 ára aldri mega ekki vinna störf sem geta ógnað líkamlegum eða andlegum þroska þeirra; er vinna á sundstöðum þó ekki sérstaklega talin upp þar. Þegar reglurnar og reglugerðin eru lesin saman þá er ljóst að ungmenni undir 18 ára aldri mega ekki vinna á sundstöðum. Ótvírætt er að þau mega ekki vinna við laugargæslu eða önnur vaktstörf á sundstöðum.

Á stærri sundstöðum getur hugsanlega verið uppi sú staða að ráðnir séu sérstakir starfsmenn sem eingöngu sinna miðasölu eða sælgætissölu meðan að á minni sundstöðum ganga starfsmenn í öll störf. Ráða má ungmenni undir 18 ára aldri til slíkra léttra starfa eingöngu en þá þyrfti atvinnurekandi jafnframt að geta sýnt fram á og ábyrgst að þeir starfsmenn muni aldrei sinna vaktstörfum af neinu tagi. Þeir þyrftu einnig að starfa undir umsjón starfsmanna 18 ára eða eldri því þeir mega ekki bera fjárhagslega ábyrgð fyrr en við 18 ára aldur.

Gera skal sérstakt áhættumat gagnvart öllum störfum sem fyrirhugað er að ráða börn og ungmenni til í samræmi við reglurgerð nr. 426/1999.