Fréttir

Áhrif vaktavinnu

23.1.2006

Hver eru áhrif vaktavinnu á heilsu fólks og líðan?

Oft berast fyrirspurnir til rannsókna- og heilbrigðisdeildar Vinnueftirlitsins um ýmiss konar vinnuverndarmál og er leitast við að svara þeim eftir bestu getu hverju sinni. Nýlega barst fyrirspurn um áhrif vaktavinnu á heilsu fólks og líðan. Spyrjanda var bent á að á bókasafni Vinnueftirlitsins væri til a.m.k. ein bók þar sem niðurstöður rannsókna á þessu sviði eru dregnar saman og vísast mætti finna margar greinar um vaktavinnu í erlendu vísindatímaritunum sem safnið geymir. Spyrjandi hafði ekki tíma né ráðrúm til að leita gagnanna og vildi fá svar um hæl. Vegna þess að fleiri hafa leitað eftir upplýsingum um þetta efni er ætlunin að draga saman helstu niðurstöður í grein sem nýlega birtist í Occupational Environmental Medicine sem er breskt tímarit um rannsóknir á vinnuverndarsviði. Höfundur greinarinnar er J. M. Harrington prófessor í Birmingham en hann hefur m.a. ritað þekkta bók um heilsuvernd starfsmanna.

Vaktavinna hefur áhrif á eðlislæga dægursveiflu hjá manninum. Manninum er eðlilegt eins og öðrum spendýrum að sofna á kvöldin, vakna á morgnana, borða á nokkurra klukkustunda fresti og menn eru misjafnlega upplagðir til vinnu eftir því hvenær sólarhrings er. Fæstum lætur vel að vaka á nóttunni en þó eru þeir til. Líkamshiti er lægstur snemma á morgnana en hæstur síðdegis. Þetta kann að hafa áhrif á vinnuhæfni og nákvæmni manna. Þannig hafa rannsóknir sýnt að vinnuslys tengjast oft þreytu og svefnleysi, að fólk á erfiðara með að einbeita sér ef eðlileg dægursveifla hefur verið trufluð.

Vaktavinna hefur áhrif á fjölskyldulíf og þátttöku í félagslífi. Sá sem vinnur vaktavinnu missir af mikilvægum samverustundum fjölskyldunnar sem oft eru um helgar eða á kvöldin þegar flestir eiga frí. Erfitt er að stunda félagsstarf sem miðar við ?venjulegan" vinnutíma t.d. hópíþróttir, kórsöng o.s.frv. Á hinn bóginn finnst þeim sem vilja vera út af fyrir sig stundum að vaktavinnan losi þá undan þeim kvöðum sem fjölskyldulíf og þátttaka í félagslífi gæti lagt á þá.

Vaktavinna hefur áhrif á heilsuna á ýmsan hátt. Sumt vaktavinnufólk á erfitt með að fá nægan svefn og nær ekki djúpum svefni. Ýmsir sem vinna vaktavinnu finna fyrir þreytu, kvíða og depurð. Á hinn bóginn má benda á það að þeir sem vinna vaktavinnu hafa yfirleitt kosið hana sjálfir og allt eins gæti verið að fólk með tiltekna eiginleika veldist til vaktavinnu eins og að vaktavinnan ætti sök á geðrænum sveiflum þess. Önnur heilsufarsvandamál geta gert vart við sig eins og sjúkdómar í hjarta- og æðakerfi en tengsl þessa við vaktavinnu eru ósönnuð. Tilgátur eru uppi um að truflun á dægursveiflu, truflun á félagslegum tengslum og félagslegum stuðningi, streita, reykingar, lélegt fæði og lítil hreyfing geti komið hér við sögu. Margt vaktavinnufólk kvartar undan óþægindum í maga og meltingartruflunum. Á það ber að líta að þetta eru algengar kvartanir hjá fólki yfirleitt en getum má leiða að því að mataræði vaktavinnufólks sé lélegra en ýmissa annarra en annað gæti komið til sem ekki er enn þekkt. Vísbendingar eru um að vaktavinna og þá einkum næturvinna sé varasöm fyrir vanfærar konur, meiri hætta sé á að þær missi fóstur, fæði fyrir tímann og fæði minni börn en aðrar konur.

Það virðist rökrænt að áætla að meiri hætta sé á slysum og afköst verði lélegri á nóttunni en að degi til. Rannsóknir sýna líka að svo er raunin, þótt á hinn bóginn hafi verið bent á að næturvinna er á stundum öðru vísi og einfaldari en dagvinna og ekki eins mikilla afkasta krafist.

Konur kvarta meir en karlar yfir syfju í vaktavinnu hvort sem það á rót sína að rekja til þess að þær kvarta almennt meir yfir heilsufarsvandamálum en karlar eða að þær þola vökurnar verr. Einnig kann það að hafa sitt að segja að þær hafi meiri skyldum að sinna heima fyrir en karlar þegar vaktinni lýkur.

Þótt almennt sé talið að eldra fólk þurfi minni svefn en þeir sem yngri eru er það ekki raunin, fremur hitt að eldra fólk á oft erfitt með svefn og sefur í dúrum. Það fær því ekki þann svefn sem það þarf. Fólk sem hefur lengi unnið vaktavinnu er úrvalshópur á þann hátt að það hefur þolað hana betur en þeir sem gáfust upp. Slíkt segir ekki að það sé skynsamlegt fyrir fólk að hefja vaktavinnu á gamals aldri.

Vaktavinna á misjafnlega við fólk. Talið er að einn af hverjum fimm hætti í vaktavinnu af því að hann þolir hana ekki, 10% fólks nýtur hennar, aðrir þola hana mismunandi vel. Hvort fólk er árrisult eða kvöldsvæft kemur hér við sögu.

Þar eð næturvinnan virðist verst ætti að draga úr henni eftir föngum. Ein leið til þess er að fjölga þeim sem taka næturvaktir. Mælt er með því að vaktirnar skiptist nokkuð hratt ? þ.e. á nokkurra daga fresti, vegna þess að það hafi minnst áhrif á dægursveifluna. Æskilegt er að fylgja klukkunni (morgunn, kvöld, nótt) og ekki er æskilegt að morgunvaktin hefjist of snemma t.d. kl. 06:00 vegna þess að þá nær fólk ekki fullum svefni. Vaktin ætti ekki að vera lengri en 10-12 klst. vegna þess að lengri vinnutími þreytir fólk. Á hinn bóginn kjósa margir að vinna langar vaktir ? ekki vegna þess að þeim finnist svo gaman í vinnunni ? heldur af því að þá verða fríin á milli vaktatímabilanna lengri.

Reynslan hefur sýnt að það er æskilegt að starfsmenn fái sjálfir að skipuleggja vaktirnar, það eykur ábyrgð þeirra og árangur.

Góður viðurgerningur í mat, heilsuvernd á vinnustað, flutningur til og frá vinnu og aðstaða til frístundaiðkunar geta átt þátt í að draga úr óæskilegum áhrifum vaktavinnu. Ýmislegt bendir til að bjart ljós geti létt af fólki drunga vegna óþæginda af dægursveiflu en það er engan veginn sannað.

Vaktavinnan verður léttbærari ef fólk er í góðri líkamlegri þjálfun og ráðgjöf um mataræði, hreyfingu og svefn getur komið að góðu hald.

Til þess að fólk geti unnið vaktavinnu án þess að bíða tjón á heilsu sinni skiptir máli að hanna gott vinnuumhverfi og að vaktataflan sé þannig gerð að vaktirnar hafi sem minnst áhrif á andlega, líkamlega og félagslega velferð vaktavinnufólksins.

Til viðbótar við grein Harringtons má benda á grein Júlíusar K. Björnssonar, sálfræðings, á netdoktor.is. Greinin heitir Áhrif vaktavinnu á heilsu, líðan og svefn: Hvaða áhrif hefur vinnufyrirkomulagið?

Heimildir um vaktavinnu:

1. J M Harrington:  Health effects of shift work and extended hours of work.Occup Environ Med 2001;58: 68-72.

Hólmfríður K. Gunnarsdóttir, sérfræðingur á rannsókna- og heilbrigðisdeild Vinnueftirlits ríkisins (hkg@ver.is