Fréttir

Áhættumat og forvarnir á vinnustöðum

21.12.2006

Ný reglugerð um skipulag og framkvæmd vinnuverndarstarfs á vinnustöðum hefur tekið gildi og hefur hún fengið númerið 920/2006. Markmið reglugerðarinnar er að tryggja að fyrir hendi sé kerfisbundið vinnuverndarstarf á vinnustöðum. Í því felst einkum að atvinnurekandi ber ábyrgð á að koma á vinnuverndarstarfi sem tekur til fyrirtækisins í heild og allra vinnuaðstæðna sem geta haft áhrif á öryggi og heilsu starfsmanna. 
Samkvæmt reglugerðinni ber atvinnurekanda að gera skriflega áætlun um öryggi og heilbrigði á vinnustað sem á að marka stefnu varðandi aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustaðnum. Áætlunin skal m.a. fela í sér:
? Mat á áhættu í starfi með tilliti til öryggis og heilsu starfsmanna, svo kallað áhættumat
? Áætlun um heilsuvernd sem byggir á áhættumatinu og felur í sér forvarnir
? Samantekt á helstu niðurstöðum áhættumats og áætlunar um heilsuvernd/forvarnir
Áætlun um öryggi og heilbrigði á að fela í sér ferli stöðugra umbóta á vinnustaðnum. Áður en breytingar eru gerðar á starfsemi fyrirtækis skal atvinnurekandi meta, hvort þær feli í sér áhættu með tilliti til öryggis og heilsu starfsmanna og hvort úrbóta sé þörf. Í forvarnarskyni skal gera a.m.k. árlega samantekt yfir vinnuslys, óhöpp og atvinnutengda sjúkdóma. Atvinnurekandi skal hafa að markmiði að bæta ríkjandi aðstæður á vinnustað.
Frá og með gildistöku reglugerðarinnar er það skylda allra atvinnurekanda að gera slíka áætlun fyrir fyrirtæki sitt. Endurskoða skal áætlunina þegar breytingar á vinnuaðstæðum, vinnutilhögun eða framleiðsluaðferðum breyta forsendum hennar. Sama gildir þegar vinnuslys verða eða önnur atvik koma upp sem benda til áhættu fyrir öryggi og heilsu.
Í nýju reglugerðinni er jafnframt að finna ákvæði um tilnefningu, hlutverk og starfshætti öryggisvarða, öryggistrúnaðarmanna og öryggisnefnda í fyrirtækjum. Eldri reglur nr. 77/1982 um heilbrigðis- og öryggisstarfsemi innan fyrirtækja, sem höfðu að geyma ákvæði um öryggisverði, öryggistrúnaðarmenn og öryggisnefndir í fyrirtækjum, hefur verið felld úr gildi.
Í reglugerðinni er að finna ítarlegri ákvæði en áður um skyldu atvinnurekenda sem eiga aðild að starfsemi á sama vinnustað að vinna saman að því að tryggja góðan aðbúnað, heilsusamlegar og öruggar vinnuaðstæður á vinnustaðnum. Jafnframt eru ítarlegri ákvæði um skyldu atvinnurekenda að tryggja að starfsmenn fái nægilega þjálfun í starfi sínu að því er varðar aðbúnað, öryggi og hollustuhætti á vinnustað.
Vinnueftirlitið mun á næstunni kynna nýtt fræðslu- og leiðbeiningaefni um áhættumat og forvarnir á vinnustað á heimasíðu stofnunarinnar. Nú þegar er þar að finna upplýsingaefni um áhættumat og gagnleg verkfæri, m.a. 23 vinnuumhverfisvísa fyrir mismunandi starfsgreinar sem gagnast við gerð áhættumatsins (sjá heimasíðu www.vinnueftirlit.is). Á nýju ári mun Vinnueftirlitið standa fyrir kynningarráðstefnu um áhættumat og forvarnir í Reykjavík. Í kjölfarið verða  haldnar slíkar ráðstefnur á landsbyggðinni. Einnig verða í boði sérstök námskeið um gerð áætlunar um öryggi og heilbrigði á vinnustað. Atvinnurekendum ber nú þegar að hefjast handa við gerð áætlunar um öryggi og heilbrigði á vinnustað og hafa lokið henni innan 3-6 mánaða. Eftirlitsmenn Vinnueftirlitsins munu fylgja nýmælum reglugerðarinnar eftir í eftirlitsheimsóknum á vinnustaði.