Fréttir

Ættu stúlkur ekki að slá með sláttuorfi?

4.8.2005

 Hólmfríður K. Gunnarsdóttir, sérfræðingur hjá Vinnueftirlitinu

 Þegar vinnuskólar sveitarfélaga taka til starfa á vorin og sláttur grasbletta hefst berast Vinnueftirlitinu að jafnaði margar fyrirspurnir um það hvort það sé hættulegt fyrir stúlkur að slá með sláttuorfi. Ekki er unnt að svara þessari spurningu á afgerandi hátt og með fullri vissu vegna þess að rannsóknir, sem gerðar hafa verið á tengslum titrings og heilsufarshættu, hafa yfirleitt verið gerðar á körlum og því er ekki óyggjandi vitneskja til um það hvort það er hættulegt fyrir stúlkur að vinna með tæki, sem valda titringi um allan líkamann eins og sláttuorf. Almennt er vitað að vélar og tæki, sem valda titringi líkamans, geta valdið heilsufarslegum skaða. Skaðinn tengist styrkleika titrings, hve lengi hann stendur yfir og hvort vélarnar og tækin uppfylla þær kröfur sem gerðar eru samkvæmt alþjóðlegum stöðlum.

Hjá Vinnueftirlitinu hefur fyrirspurnum á þessu tagi yfirleitt verið svarað á þann veg að ekki væri ástæða til að leggjast gegn því að stúlkur ynnu við slátt með vélorfi; sláttur með vélorfi í görðum sé heimill fyrir 15 ára en sláttur á opnum svæðum heimill 16 ára og eldri. Einungis er miðað við aldur viðkomandi en ekki gerður greinarmunur á kynjunum. Við lauslega yfirferð yfir reglugerðina um vinnu barna og unglinga (nr. 426/1999) sést ekki að sérstaklega sé tekið á þessu fyrir stúlkur nema ef nefna skal viðauka 3 þar sem segir að ungmenni undir 18 ára megi ekki vinna við það sem feli í sér hættu fyrir heilsu þeirra vegna óvenju mikils kulda, hita, hávaða eða titrings - og gegnir þar sama máli um pilta og stúlkur. Aðrir viðaukar leyfa sláttinn bæði fyrir pilta og stúlkur þegar þau hafa náð tilteknum aldri, en minnt er á að nota skuli öryggisskó, heyrnarhlífar og andlitshlíf.

Mikið hefur verið skrifað um heilsufarshættur tengdar titringi en oft er um að ræða heilsuvá ekki aðeins fyrir vöðva og ýmis líffæri heldur er hávaði oft samfara titringnum en hann getur auðvitað valdið heyrnartapi ef hann er yfir leyfilegum mörkum.

Í sænska tímaritinu Arbete och hälsa 1993:20 er fjallað um áhættu vegna titrings alls líkamans af völdum vinnutækja. Þá þegar höfðu komið fram vísbendingar um að titringur af þessu tagi leiddi til aukins blóðmagns við egglos og tíðir hjá konum. Ýmsar rannsóknir höfðu komist að svipaðri niðurstöðu en þóttu gallaðar og ekki unnt að draga áreiðanlegar ályktanir af niðurstöðum þeirra. Í nýrra tímariti í þessari ritröð: Arbete och Hälsa 1998:26, er fjallað um mismunandi áhættu fyrir konur og karla þegar þau vinna með tæki sem valda titringi alls líkamans eða tiltekinna líkamssvæða. Þar segir að rannsóknir hafi sýnt að konur virðist viðkvæmari fyrir titringi af völdum vinnutækja en karlar og að titringur í öllum líkamanum virðist geta valdið ýmiss konar óþægindum frá móðurlífi svo sem: tíðatruflunum, bólgum og fósturmissi. Bent er á að verkfæri af þessu tagi séu oftar en ekki hönnuð fyrir karla ? en karlar séu að jafnaði stærri og sterkari en konur. Ráðleggingar og reglur, sem varða verkfæri af þessu tagi, séu einnig yfirleitt miðaðar við karla.

Í Leiðbeiningum um áhættumat í starfsumhverfi þungaðra kvenna og kvenna sem hafa nýlega alið barn eða eru með barn á brjósti (www.vinnueftirlit.is) segir að konur, sem leiðbeiningarnar nái til, skuli forðast lágtíðnititring, örmeiðsli, hristing, snögga skrykki og rykki eða högg á neðri hluta líkamans.

Sænska rannsóknarstofnunin í vinnuvernd hefur unnið að víðtækum rannsóknum á áhrifum titrings á mannslíkamann. Frekari upplýsinga er að leita á vefnum, en það eru vísindamenn í Umeå sem hafa staðið að rannsóknunum. Samkvæmt upplýsingum á netinu er að vænta nýrra niðurstaðna um áhrif titrings á kvenlíkamann á þessu ári. Prófessor Lage Burström er í forsvari fyrir þeim rannsóknum en það var einmitt hann sem svaraði fyrirspurnum okkar um þetta efni þegar við leituðum eftir þeim í fyrravor (www.arbetslivsinstitutet.se).

Í stuttu máli sagt: Ekki er hægt að fullyrða að sláttur með sláttuorfi sé með öllu hættulaus fyrir konur en áhættan er háð því hve lengi er staðið að slætti og hversu miklum titringi orfið veldur.