Fréttir

Aðgerðir gegn einelti á vinnustað

10.5.2006

Viðbrögð við einelti og annarri ótilhlýðilegri háttsemi á vinnustað

Reglugerð nr. 1000/2004 um aðgerðir gegn einelti á vinnustöðum hefur tekið gildi (sjá nánar). Ennfremur hefur verið gefinn út vinnumhverfisvísir til að meta félagslegan og andlegan aðbúnað á vinnustað og bæklingur er nefnist Einelti og kynferðisleg áreitni á vinnustöum - Forvarnir og viðbrögð.

Vinnueftirlitið hefur leiðbeinandi hlutverk og eftlitsskyldu í eineltismálum. Stofnuninni ber ennfremur að vinna að forvörnum t.d. með leiðbeiningum og fræðslu og sjá til þess að atvinnurekandi grípi til viðeigandi úrbóta (sjá nánar) á vandamálum í vinnuumhverfinu. Ákveðnar upplýsingar þurfa helst að liggja fyrir þegar kvartað er til Vinnueftirlitsins um einelti á vinnustað - sjá ennfremur eyðublað. Hægt er að senda eyðublaðið til Vinnueftirlitsins eða að hafa samband við einhverja af umdæmisskrifstofum Vinnueftirlitsins til að fá nánari upplýsingar og aðstoð við að leggja fram kvörtun.

Reglugerð nr. 1000/2004 - Aðgerðir gegn einelti á vinnustað

Vinnuverndarlögin, lög nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, voru endurskoðuð árið 2003, en þá kom inn ákvæði í V. kafla um framkvæmd vinnu, 38. gr. að félagsmálaráðherra ætti að setja nánari reglur, að fenginni umsögn stjórnar Vinnueftirlitsins, um aðgerðir gegn einelti á vinnustöðum. Reglugerð um aðgerðir gegn einelti á vinnustöðum nr. 1000/2004 tók gildi 2. desember 2004.

Alþjóðavinnumálastofnunin hefur vakið máls á vandamálum er tengjast einelti og öðru ofbeldi á vinnustöðum. Í félagsmálasáttmála Evrópu, 2. mgr. 26. gr., er kveðið á um rétt fólks til mannlegrar reisnar í starfi. Þar kemur fram að stuðla skuli að aukinni vitund og forvörnum gegn endurtekinni, ámælisverðri eða ótilhlýðilegri og móðgandi háttsemi sem beinist að einstökum starfsmönnum á vinnustað eða starfi þeirra.

Litið hefur verið svo á að andlegt og félagslegt vinnuumhverfi falli undir markmið vinnuverndarlaganna. Með setningu reglugerðarinnar er verið að leggja áherslu á að innan hvers vinnustaðar verði stuðlað að forvörnum og aðgerðum gegn einelti.

Einelti er skilgreint, samkvæmt reglugerðinni, sem ámælisverð eða síendurtekin ótilhlýðileg háttsemi, þ.e. athöfn eða hegðun sem er til þess fallin að niðurlægja, gera lítið úr, móðga, særa, mismuna eða ógna og valda vanlíðan hjá þeim sem hún beinist að. Kynferðisleg áreitni og annað andlegt eða líkamlegt ofbeldi fellur hér undir.

Undir skilgreininguna fellur ekki skoðanaágreiningur eða hagsmunaárekstur sem kann að rísa á vinnustað milli t.d. stjórnanda og starfsmanns eða tveggja eða fleiri starfsmanna enda leiði slíkur skoðanaágreiningur eða hagsmunaárekstur ekki til þeirrar háttsemi sem lýst er hér að ofan.

Í reglugerðinni kemur m.a. fram að atvinnurekandi skal skipuleggja vinnu þannig að dregið sé úr hættu á að þær aðstæður skapist í vinnuumhverfi, sem leitt geti til eineltis eða annarrar ótilhlýðilegrar háttsemi. Orsakir eineltis geta verið margvíslegar en skipulag og framkvæmd vinnu getur átt stóran þátt í að skapa aðstæður þar sem einelti getur þróast. Atvinnurekandi skal gera starfsfólki það ljóst að einelti og önnur ótilhlýðileg háttsemi er óheimil á vinnustað og honum ber skylda til að láta ekki slíkt viðgangast á vinnustað. 

Vinnueftirlitið hefur gefið út ýmsa bæklinga um félagslega og andlega áhættuþætti í vinnuumhverfinu. Þar er meðal annars að finna bækling sem nefnist Einelti og kynferðisleg áreitni á vinnustað - forvarnir og viðbrögð og bækling/veggspjald - Er einelti á vinnustaðnum? Einnig hefur verið gefinn út vinnuumhverfisvísir sem er hægt er að nýta við að meta félagslegan og andlegan aðbúnað á vinnustað.

Mikilvægt er að starfsmaður, sem orðið hefur fyrir einelti á vinnustað eða hefur vitneskju um slíkt, upplýsi atvinnurekanda eða vinnuverndarfulltrúa vinnustaðarins um eineltið svo hægt sé að bregðast við eins fljótt og kostur er.

Hlutverk og viðbrögð Vinnueftirlitsins

Vinnueftirlitið hefur leiðbeinandi hlutverk og eftirlitsskyldu með að lögum og reglum á sviði vinnuverndar sé framfylgt. Viðbrögð Vinnueftirlitsins í eineltismálum beinast að því að vinnuumhverfið verði sem heilsusamlegast og öruggast til frambúðar. Vinnueftirlitið skal einnig sjá til þess að atvinnurekandi grípi til veiðeigandi úrbóta ef hann hefur ekki sinnt skyldum sínum á viðunandi hátt að mati stofnunarinnar. Vinnueftirlitið er hlutlaus aðili og tekur aldrei beinan þátt í úrlausn mála innan vinnustaðarins.

Ekkert ákvæði í vinnuverndarlögunum heimilar Vinnueftirlitinu að taka ákvarðanir í málum einstakra starfsmanna, hvort sem kvörtunin lýtur að líkamlegri eða andlegri vanlíðan þeirra, heldur skulu ákvarðanir Vinnueftirlitsins beinast að aðstæðum á vinnustaðnum og ábyrgð atvinnurekandans. Vinnueftirlitið úrskurðar því ekki um hvort tiltekinn einstaklingur hafið orðið fyrir einelti eða ekki. Stofnunin tekur engu að síður við ábendingum um einelti eða annan vanbúnað á vinnustað frá starfsmönnum eða öðrum þeim er verður hans áskynja.

Ef fram kemur kvörtun um einelti á vinnustað skal atvinnurekandi bregðast við eins fljótt og hægt er og leitast við að leysa málin innan vinnustaðarins með aðkomu öryggistrúnaðarmanna, öryggisvarða eða öryggisnefnda eftir atvikum. Einnig getur verið um að ræða aðkomu annarra vinnuverndarfulltrúa sem sérstaklega er falið að sinna félagslegum aðbúnaði á vinnustað.

Hlutverk Vinnueftirlitsins er að fylgjast með því að innan vinnustaðanna sjálfra séu skilyrði fyrir því að hægt sé að leysa öryggis- og heilbrigðisvandamál í samræmi við gildandi lög og reglur.

 Forsenda þess að Vinnueftirlitið komi að málum er:

  • að um endurtekna og viðvarandi háttsemi sé að ræða skv. 2. gr. reglugerðar um aðgerðir gegn einelti nr. 1000/2004. 
  • að ljóst sé að sá starfsmaður sem málið varðar sé enn starfandi á vinnustaðnum. 
  • að málið hafi verið tekið upp innan vinnustaðarins en viðunandi lausn hafi ekki náðst. 
  • að aðstæður séu slíkar að ekki er hægt að taka málið upp innan vinnustaðarins, t.d. þegar atvinnurekandi er meintur gerandi. 
  • að fyrir liggi skriflegt leyfi frá starfsmanninum eða umboðsmanni hans um að upplýsingar varðandi málið megi nota í samskiptum eftirlitsmanns við vinnustaðinn.

Vinnueftirlitið kemur ekki að málum:

  • ef deilur snúast um kjaramál. 
  • ef um er að ræða deilur eða hagsmunaárekstra milli stjórnenda og starfsmanna eða tveggja einstaklinga nema þær séu viðvarandi eða endurtaki sig kerfisbundið, sbr. 3. gr. reglugerðar nr. 1000/2004 um aðgerðir gegn einelti á vinnustað.

Ef starfsmaður, sem kvartar til Vinnueftirlitsins er hættur störfum eða hefur ákveðið að hætta, tekur stofnunin málið upp í almennu eftirliti undir félagslegum aðbúnaði. Það sama gildir ef starfsmaður óskar nafnleyndar, þ.e. þá er umræða um einelti á vinnustað tekin upp í almennu eftirliti undir félagslegum aðbúnaði og umrædd kvörtun ekki nefnd.

 Vinnueftirlitið fer fram á að ákveðnar upplýsingar liggi fyrir (sjá nánar) þegar kvartað er til stofnunarinnar um einelti á vinnustað. Ennfremur þarf að fylla út eyðublað (sjá staðlað eyðublað). Þegar umbeðnar upplýsingar liggja fyrir boðar eftirlitsmaður Vinnueftirlitsins til fundar á vinnustaðnum með atvinnurekanda, öryggisnefnd sé hún til staðar eða öryggisverði og öryggistrúnaðarmanni, félagslegum trúnaðarmanni eða öðrum tilnefndum fulltrúum, séu þeir til staðar. Möguleiki er að meintur þolandi taki einnig þátt í fundinum. Miðað er við að fundurinn verði innan 14 daga frá því að umbeðnar upplýsingar bárust.

Eftirlitsmaður Vinnueftirlitsins gefur fyrirmæli og ábendingar eftir fundinn sem geta t.d. falið í sér:

a. Fyrirmæli um áhættumat og áætlun um forvarnir varðandi félagslegan  aðbúnað á vinnustað.
b. Fyrirmæli um að gerð sé almenn viðbragðsáætlun vinnustaðarins gegn einelti.
c. Fyrirmæli um að gerðar séu ráðstafanir til að bregðast við þeim vanda sem upp er kominn á vinnustaðnum.
d. Fyrirmæli varðandi aðstoð eða úttekt utanaðkomandi ráðgjafa.

Samkvæmt 65. gr. vinnuverndarlaganna ber atvinnurekandi ábyrgð á að gerð sé skrifleg áætlun um öryggi og heilbrigði á vinnustað. Áætlunin skal meðal annars fela í sér mat á áhættu, sbr. 65. gr. a lið, og áætlun um heilsuvernd, sbr. 66. gr.
 
Ef ekki er farið eftir ákvörðunum Vinnueftirlitsins á grundvelli vinnuverndarlaganna, nr.  46/1980, 87. gr. og reglna sem settar eru með stoð í þeim, getur stofnunin gripið til þvingunaraðgerða, t.d. til dagsekta, þar til farið verður að ákvörðun stofnunarinnar.