Fréttir

Ábyrgð og skyldur atvinnurekanda og verkstjóra samkvæmt vinnuverndarlöggjöfinni

4.8.2005

Í lögum nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum er að finna ákvæði um skyldur atvinnurekenda og verkstjóra. Ákvæðin kveða með almennum hætti á um þær skyldur sem hvíla á atvinnurekendum og verkstjórum gagnvart starfsmönnum á vinnustað. Víða í reglum og reglugerðum, settum með stoð í lögum nr. 46/1980, er að finna nánari ákvæði um skyldur þessara aðila. Markmið eftirfarandi umfjöllunar er að varpa ljósi á ábyrgð atvinnurekenda og verkstjóra skv. vinnuverndarlöggjöfinni, þ.e.a.s. lögum nr. 46/1980 og reglugerðum settum með stoð í þeim. 

Skyldur og ábyrgð atvinnurekanda

Í lögum nr. 46/1980 er hugtakið atvinnurekandi skilgreint sem hver sá sem rekur atvinnustarfsemi. Sé starfsemi, sem lögin ná til, rekin af tveim mönnum eða fleirum í sameiningu, telst aðeins einn þeirra atvinnurekandi samkvæmt lögunum og skal tilkynnt til Vinnueftirlitsins hver rekstraraðilanna telst atvinnurekandi. Framkvæmdastjóri fyrirtækis telst jafnframt atvinnurekandi í merkingu laganna nr. 46/1980 og sé um opinberan rekstur að ræða, telst sá atvinnurekandi, sem umsjón hefur með starfseminni. Það er því ljóst að hugtakið atvinnurekandi í lögunum hefur víðtæka merkingu.
 
Um skyldur og ábyrgð atvinnurekanda er fjallað í IV. kafla laga nr. 46/1980. Í kaflanum kemur fram að sú almenna skylda hvíli á atvinnurekanda að tryggja, að gætt sé fyllsta öryggis og góðs aðbúnaðar og hollustuhátta á vinnustað. Í því samhengi er vísað til annarra kafla í lögunum þar sem nánar koma fram skyldur atvinnurekanda. Önnur mikilvæg ábyrgð atvinnurekanda kemur einnig fram í kaflanum. Hún er sú að atvinnurekanda ber að gera starfsmönnum sínum ljósa slysa- og sjúkdómahættu, sem kann að vera bundin við starf þeirra. Að auki skal hann sjá um að starfsmenn fái nauðsynlega kennslu og þjálfun í að inna störf sín af hendi á þann hátt að ekki stafi hætta af.

Eins og sjá má bera atvinnurekendur, þ.m.t. framkvæmdastjórar og þeir sem hafa umsjón með starfsemi, mikla ábyrgð á að starfsfólk njóti öryggis í starfi.

Skyldur og ábyrgð verkstjóra

Samkvæmt lögum nr. 46/1980 er verkstjóri fulltrúi atvinnurekanda og hefur með höndum verkstjórn og eftirlit með starfsemi í fyrirtæki eða hluta þess.

Ákvæði um skyldur verkstjóra er aðallega að finna í 20. ? 23. gr. laga nr. 46/1980. Samkvæmt ákvæðunum hvílir m.a. sú skylda á verkstjóra að sjá um að búnaður allur sé góður og öruggt skipulag ríki á þeim vinnustað sem hann hefur umsjón með. Honum ber skylda til þess að beita sér fyrir því að starfsskilyrði innan þess starfssviðs, sem hann stjórnar, séu fullnægjandi að því er varðar aðbúnað, hollustuhætti og öryggi. Jafnframt ber hann ábyrgð á að þeim ráðstöfunum, sem gerðar eru í þeim tilgangi að auka öryggi og tryggja aðbúnað, sé framfylgt. Samkvæmt lögunum skal verkstjóri taka þátt í samstarfi sem miðar að auknu öryggi og betri aðbúnaði og hollustuháttum á vinnustað. Ennfremur ber honum að tryggja að hættu sé afstýrt, verði hann var við einhver þau atriði sem leitt geta til hættu á slysum eða sjúkdómum. Í lögunum segir einnig að ef verkstjóra verður skyndilega ljóst að upp hafi komið bráð hætta á heilsutjóni eða vinnuslysum starfsmanna á vinnustað er honum skylt að hlutast til um að starfsemin verði stöðvuð strax og/eða að stafsfólk hverfi frá þeim stað þar sem hættuástand ríkir, sbr. 86. gr. 

Samkvæmt ofangreindu bera verkstjórar eins og atvinnurekendur mikla ábyrgð gagnvart starfsfólki sínu samkvæmt lögum og reglum.

Refsiábyrgð atvinnurekenda og verkstjóra samkvæmt lögum nr. 46/1980

Eins og rakið hefur verið hér að ofan hvílir ákveðin lagaskylda á atvinnurekanda og verkstjóra, sem felur í sér að þeim ber að tryggja að gætt sé fyllsta öryggis og góðs aðbúnaðar og hollustuhátta á vinnustað. Í XV. kafla laga nr. 46/1980 er að finna refsiákvæði en þar segir að brot gegn lögunum og reglugerðum settum samkvæmt þeim geti varðað sektum. Af þessu ákvæði leiðir að ef atvinnurekendur og verkstjórar  sinna ekki þeirri skyldu sem ákvæðin í lögum og reglugerðum kveða á um, getur það varðað hinn brotlega sektum og jafnvel fangelsisvist, ef þyngri refsingu við háttseminni er að finna í öðrum lögum.

Áslaug Einarsdóttir, lögfræðingur Vinnueftirlitsins