Fréttir

Á vaktinni - Viðhorf fólks og væntingar

4.6.2007

Skýrsla frá Rannsóknastofu í vinnuvernd um niðurstöður könnunar meðal vaktavinnufólks

Í tengslum við endurnýjun kjarasamninga veturinn 2004-2005 var skipaður starfshópur með fulltrúum Bandalags háskólamanna, Bandalags starfsmanna ríkis og bæja og fulltrúum ríkis, Reykjavíkurborgar og Launanefndar sveitarfélaga með það að markmiði að bæta vinnufyrirkomulag vaktavinnustarfsmanna og gera vaktavinnu eftirsóknarverðari.
Í kjölfarið fól starfshópurinn Rannsóknastofu í vinnuvernd að kanna aðstæður, aðbúnað og viðhorf vaktavinnufólks til vaktavinnu til að fá hugmyndir um hvernig breyta mætti vinnufyrirkomulaginu svo að starfið yrði eftirsóknarverðara.
Í desember og janúar 2005 - 2006 var gerð eigindleg rannsókn þar sem tekin voru viðtöl við rýnihópa sem í voru starfsmenn, sem vinna vaktavinnu, og stjórnendur sem koma að gerð vaktavinnuáætlana. Vorið 2006 voru niðurstöður rannsóknarinnar gefnar út í skýrslunni Á vaktinni  - með sveigjanlegum stöðugleika. Önnur rannsókn var gerð haustið 2006 en þá var spurningalisti lagður fyrir 820 starfsmenn, bæði í Reykjavík og úti á landi, sem flestir voru í vaktavinnu. Svarhlutfall var 80%.
  Stærsti hluti þátttakenda er óánægður með vaktaálag (greiðslur), sama hvort spurt var um kvöld-, nætur-, helgar-, bak-, eða aukavaktir. Óánægjan var enn greinilegri þegar spurt var um vaktaálag á sérstökum frídögum (hátíðarvöktum og stórhátíðarvöktum).
Marktækur munur kom fram á heildarlaunum karla og kvenna þannig að karlarnir voru með hærri laun þótt konurnar séu fremur með háskólamenntun. Hluti af skýringunni getur verið að karlar vinni frekar en konur á helgum og hátíðisdögum.
Fleiri konur en karlar höfðu breytt um starf til að hvíla sig á vaktavinnunni.
Rúmur þriðjungur þátttakenda sagðist ekki ætla að vinna vaktavinnu næstu árin og gildir það fremur um karla en konur. Það sem virðist hvað helst geta fengið starfsfólk til að breyta þessari afstöðu sinni er að vaktaálag/greiðslur verði hækkaðar og vinnutíminn styttur.
Mikil ánægja ríkir með svokallaða óskaleið en starfsfólk, sem notar þá leið, hefur almennt meiri möguleika á að skipuleggja vinnutíma sinn en aðrir. Af þeim sem nota óskaleiðina voru 92% frekar eða mjög ánægðir með hana.

Sjá skýrsluna í heild (Á vaktinni - viðhorf fólks og væntingar)