Fréttir

50. Norræna vinnuverndarþingið

21.9.2004

50. Norræna vinnuverndarþingið (50 Nordiska arbetsmiljömötet) var haldið á Nordica Hotel dagana 30. ágúst - 1. september 2004. Er þetta í fimmta sinn sem þingið er haldið á Íslandi. Þingið sóttu um 150 manns, þar af um 130 frá hinum Norðurlöndunum.

Aðstoðarmaður félagsmálaráðherra Sigurjón Þórsson opnaði þingið í fjarveru ráðherra en síðan flutti einn þriggja gestafyrirlesaranna prófessor Mikko Härmä frá Finnsku rannsóknarstofnuninni í vinnuvernd opnunarfyrirlestur um vaktavinnu og áhrif hennar á heilsuna og hvernig draga mætti úr áhrifunum (Shift work and health: intervention measures at work settings aiming at improving health). Jorma Rantanen gestafyrirlesari, fyrirverandi yfirmaður finnsku rannsóknarstofnunarinnar í vinnuvernd fjallaði um samstarf Norðurlandanna um rannsóknir á sviði vinnuverndar síðustu 50 árin (Nordic collaboration in occupational health research - analysis of the past 50 years). Lokaerindið á ráðstefnunni flutti þriðji gestafyrirlesarinn, Helge Kjuus yfirmaður rannsóknardeildar á heilbrigðissviði á norsku rannsóknarstofnununinni í vinnuvernd og nefndi hann erindið "Assessment of the health impact of occupational exposure - science, quesstimates or politics?".

Á ráðstefnunni voru auk þess fluttir 62 styttri fyrirlestrar og kynning á 40 veggspjöldum undir mismunandi þema. Má þar nefna sem dæmi um þema sálfélagslegir þættir, einelti, mengunarmælingar og sýnataka, heilbrigði í vinnunni - heilbrigt atvinnulíf, gagnabankar á sviði vinnuverndar, faraldsfræði, ofnæmi, Evrópuverkefni á sviði vinnuverndar, eiturfræði, áhættugreining og kynntar voru ýmsar niðurstöður á m.a. mengunarmælingum í tilteknum atvinnugreinum.