Fréttir

1. tbl. tímaritsins WORK árið 2004 er helgað Íslandi

11.9.2004

Út er komið fagtímaritið WORK ? a journal of prevention, assessment & rehabilitation. Tímaritið er helgað alþjóðlegri umræðu um vinnutengda iðju, vinnuumhverfi, stjórnun og annað sem lýtur að vinnu. Aðalmarkmið blaðsins er að efla forvarnir og koma þar með í veg fyrir skaða af völdum vinnu. Jafnframt er fjallað um einstaklingsmiðaða nálgun í endurhæfingu.

Fyrsta tölublað ársins 2004 er að þessu sinni helgað Íslandi og gestaritstjóri fyrir Íslands hönd er Gunnhildur Gísladóttir iðjuþjálfi M.Sc. Lögð var áhersla á að gefa innsýn í þá vinnu sem unnin er á Íslandi hvað varðar vinnutengdar rannsóknir, segja frá forvarnarstarfi, endurhæfingarmöguleikum og matstækjum þeim sem notuð eru í þágu vinnutengdrar iðju.

Greinarhöfundar eru iðjuþjálfar, læknar, hjúkrunarfræðingar og félagsráðgjafar. Meðal efnis í blaðinu eru greinar um rannsóknir á sviði endurhæfingar, bæði í sérhæfðri verkjameðferð og starfstengdri endurhæfingu. Einnig eru greinar um rannsóknir á vellíðan í vinnu hjá starfsfólki í ýmsum atvinnugreinum. Fjallað er um mikilvægi forvarnarstarfs á vinnustöðum og hvernig vellíðun starfsmanna er háð tækni og þróun. Sagt er frá matstæki sem verið er að þýða og staðfæra á íslensku. Greinar í blaðinu hafa þegar vakið athygli fræðimanna hérlendis sem erlendis.

Tímaritið WORK hefur verið gefið út árlega síðan 1990 í tveimur til þremur tölublöðum og birtir eingöngu ritrýndar greinar. Upprunalega var tímaritið gefið út í Bandaríkjunum en nú hefur hollenskt fyrirtæki tekið að sér útgáfuna. Blaðið er áskriftartímarit og fer um allan heim.

Hægt er að nálgast yfirlit og innihaldslýsingu á efni blaðsins á eftirtöldum stöðum: MEDLINE, CINAHL, EMBASE/Excerpta Medica, Ergonomics Abstracts og Health & Safety Science Abstracts.

Vefsíða útgefanda er www.iospress.nl og þar er einnig hægt að finna yfirlit og innihaldslýsingu.

Nánari upplýsingar gefur ritstjórinn, Gunnhildur Gísladóttir.