Fréttir

Smitvarnir, varnir gegn stoðkerfisvanda og félagslegt álag í heimsendingarþjónustu

2.4.2020

Heimsendingarthjonusta

Nokkrar verslanir hafa boðið upp á heimsendingu á nauðsynjavörum í gegnum tíðina og hefur slík þjónusta aukist umtalsvert á skömmum tíma sökum útbreiðslu COVID-19. Fleiri fyrirtæki hafa tekið upp breytta viðskiptahætti og boðið heimsendingu á vörum sínum. Þessi hraða breyting hefur leitt til þess að sífellt fleiri starfa við heimsendingu.

Að ýmsu þarf að hyggja til að tryggja vinnuvernd starfsfólksins sem ekki má gleymast í öllu annríkinu við að mæta þörfum viðskiptavina. Þegar vinnan er skipulögð þarf sérstaklega að huga að reynsluleysi starfsfólks þar sem um fjölmörg ný störf er að ræða. Þá þarf í mörgum tilfellum að gæta sérstaklega að ungum aldri starfsmanna.

Afgreiðsla pöntunar

Starfsmenn geta þurft að hafa hraðar hendur til að anna eftirspurn. Við þær aðstæður þarf að huga að eftirfarandi í tengslum við stoðkerfi líkamans:

 • Tryggja þarf að auðvelt sé fyrir starfsmann að handleika vörur.
 • Starfsmaður verður að komast greiðlega að vörunum hvort sem notast er við léttitæki eða ekki.
 • Þegar vörur eru teknar úr hillum er mikilvægt að þeim sé raðað eftir þyngd og eftirspurn.
 • Hillur sem eru 50-140 sentimetrum frá gólfi auðvelda tínsluna og minnka álagið á stoðkerfið.

Þegar pantanir berast og starfsmenn taka saman vörur þá er ýmist notuð hjólaborð eða innkaupakerrur. Mikilvægt er að hafa eftirfarandi í huga til verndar starfsmanni:

 • Það getur skipt máli hvort hjólaborð eða innkaupakerra verður fyrir valinu. Ef innkaupakerra er notuð og vörurnar eru í kassa getur verið erfitt að lyfta kössunum upp úr kerrunni.
 • Ef borð er notað þegar gengið er frá vörum í kassa eða poka þá skiptir hæðin á borðinu máli.
 • Best er að nota hæðastillanlegt borð eða borð sem er 10 -15 sentimetrum fyrir neðan olnboga starfsmannsins.
 • Starfsmaður ætti að hafa tækifæri til að skipta um stellingu, t.d. sitja eða standa við vinnu sína.
 • Ef starfsmaður þarf að standa við vinnu sína skiptir máli að hann fái reglulega hvíld til þess að koma í veg fyrir þreytu og álag á mjóbak og í fótleggjum.
 • Mikilvægt er að starfsmaður fái reglulega hvíld frá vinnu sinni, sérstaklega á álagstímum.

Þegar pantanir eru afgreiddar þarf að huga að því hvernig er gengið frá þeim með tilliti til þyngdar og lögunar og hvert heimsendingin á að fara. Frágangur á vörum skiptir máli fyrir bílstjórann sem dreifir vörunum til heimilanna.

 • Er gengið beint inn í húsnæði á áfangastað eða þarf að fara upp hæðir í lyftulausu húsi?
 • Ef starfsmaður þarf að bera vörur upp tröppur eða lengri vegalengd þá þarf að hafa í huga að mesta þyngd sem starfsmaður má bera er 25 kíló í 30 sentimetra fjarlægð frá líkamanum. Hann má ganga með vörurnar allt að 20 metra vegalengd.
 • Það þarf að hafa í huga að ein trappa er metin sem einn metri þegar þungar byrðar eru bornar.

Gott er að hafa skipulagið þannig að pöntunum sé skipt jafnt á milli starfsmanna til að dreifa álaginu.

Afhending vörunnar

Aðgengi að húsi viðskiptavinar

Mikilvægt er að beina því til viðskiptavina að aðkoma skiptir máli þegar vörurnar eru afhentar. Ef götunúmer eru ekki sýnileg þarf að taka það fram við pöntun og gefa góða veglýsingu þannig að bílstjóri finni afhendingarstaðinn auðveldlega. Gott er að setja pöntunarformið þannig upp að viðskiptavinur geti veitt viðbótarupplýsingar varðandi afhendingu, t.d. að viðskiptavinur búi á neðri hæð, í stigahúsi án lyftu, að gengið sé inn baka til o.s.frv.

Samskipti

Til að draga úr líkum á að starfsmenn verði fyrir neikvæðni og auka jákvæða upplifun viðskiptavina er mikilvægt að gera ráðstafanir með tilkynningum, auglýsingum eða sms-skilaboðum sem útskýra tafir eða önnur vandkvæði.

Jafnframt er mikilvægt að veita starfsfólki þjálfun í að taka á móti neikvæðum athugasemdum viðskiptavina á kurteisan hátt og leiðbeina því hvernig unnt er að vinna úr neikvæðum tilfinningum sem oft fylgja neikvæðum eða erfiðum samskiptum. Þetta má gera með leiðbeiningum sem eru aðgengilegar starfsmönnum eða með því að hvetja starfsmenn að ræða við yfirmenn um líðan sína.

Mikilvægt er að gera ráðstafanir varðandi öryggi starfsmanna sem eru einir á ferð. Í því skyni er unnt að setja reglur um að varan sé ávallt afhent utan íbúðar, ýmist utanhúss eða á stigagangi. Eins er unnt að setja upp tilkynningarkerfi eða sjá til þess að starfsmenn hafi viðeigandi öryggishnappa meðferðis.

Vinnutími

Huga þarf sérstaklega að vinnutíma starfsfólks sem starfar við heimsendingu og gæta þess að það fái viðunandi hvíld á meðan á vinnutíma stendur. Það reynir bæði á starfsmenn að afgreiða pantanir þar sem áhersla er á hraðar hendur og rétta afgreiðslu sem og að eiga í stöðugum samskiptum við viðskiptamenn. Þarf sérstaklega að gæta að hvíldartíma bílstjóra en mikil slysahætta fylgir því að vera þreyttur í umferðinni.

Smitvarnir

Á tímum COVID-19 þarf enn fremur að huga að smitvörnum þeirra sem vinna við að afgreiða pantanir og senda vörur heim til viðskiptavina.

 • Mikilvægt er að allir starfsmenn sem koma að heimsendingum fái ítarlega fræðslu um COVID-19 og helstu smitleiðir.
 • Allir starfsmenn þurfa að sinna persónulegu hreinlæti mjög vel, t.d. með reglulegum handþvotti og með því að sótthreinsa hendur.
 • Allir starfsmenn ættu að nota einnota hanska, sem þeir skipta um reglulega, þegar þeir meðhöndla vörur til heimkeyrslu en umbúðir geta hýst veiruna í allt að 72 klst.
 • Ökumenn sem sinna heimkeyrslu ættu að sótthreinsa stýri, gírstöng, handföng og aðra fleti sem þeir snerta reglulega. Huga þarf sérstaklega vel að þrifum eftir að hafa hóstað eða hnerrað. Sömuleiðis þegar bílum er skilað til annarra ökumanna.
 • Setja ætti upp einnota hanska áður en vara er handleikin til afhendingar og henda þeim í ruslapoka að afhendingu lokinni.
 • Áður en vara er afhent skal hafa samband við viðskiptavininn í gegnum síma eða rafrænt til að ákveða nákvæma staðsetningu og afhendingartíma varanna, t.d. utan við íbúðardyr. Forðast skal að afhenda vöru beint til viðskiptavinar til að koma í veg fyrir smit.