Fréttir

Smitvarnir í verslunum

2.4.2020

Smitvarnir í verslunumSamkomubann er í gildi, sökum útbreiðslu COVID-19, sem kveður á um að ekki megi fleiri en tuttugu manns koma saman í hverju rými. Þessar reglur gilda um allar verslanir og þjónustufyrirtæki að undanskildum matvöruverslunum og lyfjaverslunum. Í öllum tilvikum þarf að gæta að því að hafa tvo metra á milli manna.

Í matvöruverslunum og lyfjaverslunum mega vera 100 manns inni í einu að því gefnu að gætt sé að því að tveir metrar séu á milli manna. Ef matvöruverslanir eru yfir 1.000 fermetrar er heimilt að hleypa einum einstaklingi inn til viðbótar fyrir hverja 10 fermetra þar umfram, en þó aldrei fleiri en 200 viðskiptavinum.

Á meðan samkomubann er í gildi standa verslanir og stórmarkaðir frammi fyrir áður óþekktum áskorunum. Mikilvægt er að atvinnurekendur og starfsmenn leiti sem flestra leiða til að minnka hættuna á smiti, hvort heldur hjá starfsmönnum eða viðskiptavinum. Þær eru m.a. eftirfarandi:

 1. Bjóða upp á spritt og fara fram á að viðskiptavinir spritti hendur áður en þeir stíga inn í verslunina og þegar þeir yfirgefa hana.
 2. Gera viðskiptamönnum kleift að hreinsa handföng á innkaupakerrum með spritti eða sótthreinsiefni áður en notkun er hafin.
 3. Vinnuveitandi tryggi að handföng á innkaupakerrum og körfum séu hreinsuð reglulega yfir daginn með spritti eða sótthreinsefni. Helst eftir hverja notkun.
 4. Tryggja starfsmönnum aðgengi og aðstöðu til handþvottar.
 5. Að starfsfólk verslana noti einnota hanska til að verja sig gegn smiti sem komið gæti frá vörum verslunarinnar og skipti um þá reglulega en hafi einnig greiðan aðgang að spritti á hendurnar þegar þurfa þykir.
 6. Minna starfsfólk á að forðast að bera hendur í andlit. Sérstaklega í augu, nef og munn.
 7. Takmarka fjölda viðskiptavina inn í verslunina í samræmi við reglur samkomubanns.
 8. Hvetja viðskiptavini til að undirbúa verslunarferðir með því að gera innkaupalista. Það gerir þær markvissari og styttri og fækkar ferðum.
 9. Minna á tveggja metra regluna þar sem raðir eiga það til að myndast, t.d. við afgreiðslukassa.
 10. Setja upp mælistikur (punkta eða línur) með tveggja metra millibili við kassa og víðar í versluninni þannig að viðskiptavinir eigi auðveldara með að halda réttri fjarlægð sín á milli og gagnvart afgreiðslufólki.
 11. Sjá til þess að aðeins einn viðskiptavinur setji vörur á færiband í einu til að koma í veg fyrir að fólk safnist saman fyrir framan afgreiðslukassann. Í því felst einnig að gefa viðskiptavini tækifæri á að ganga frá vörum sínum áður en næsti viðskiptavinur er afgreiddur.
 12. Þar sem það á við er hægt að setja upp sérstakar hlífar úr plasti eða gleri fyrir framan starfsfólk verslana sem vinnur við afgreiðslu á kassa. Þá er hægt að hafa annan hvern afgreiðslukassa opinn og beina viðskiptavinum þá leið sem tryggir alltaf a.m.k. tveggja metra fjarlægð milli starfsmanna á kassa og viðskiptavina. Þannig er hægt að verja starfsfólk gegn hugsanlegu smiti af völdum hósta og hnerra.
 13. Staðsetja posa þannig að þeir séu ekki nálægt starfsfólki og sótthreinsa þá reglulega.
 14. Setja upp merkingar sem eru vel sýnilegar viðskiptavinum um mikilvægi þess að þeir stígi vel til hliðar þegar þeir óska eftir aðstoð starfsmanna, t.d. við sjálfsafgreiðslu, þannig að starfsmaður eigi auðveldara með að minna viðskiptavini á þær reglur sem gilda.
 15. Setja upp merkingar þar sem starfsfólk og viðskiptavinir eru hvattir til að hósta eða hnerra ekki út í loftið heldur í olnbogabótina eða í pappír. Þannig er einnig komið í veg fyrir að úði fari á hendur.
 16. Veita starfsmönnum stuðning og tækifæri til að ræða áhyggjur sínar, t.d. með daglegum upplýsingum og spjalli við næsta yfirmann eða samstarfsmenn.
 17. Hafa skýrar reglur um til hvaða aðgerða þarf að grípa ef starfsmenn veikjast og hvaða einkennum þarf að hafa áhyggjur af. Gefa þarf skýr skilaboð um að starfsmenn mæti ekki til starfa finni þeir fyrir kvef- eða flensueinkennum jafnvel þó þau séu væg eða ekki einkennandi fyrir COVID-19.
 18. Minna starfsmenn á skyldur þeirra að taka ábyrgð á eigin heilsu og ekki stefna öryggi og heilsu annarra í hættu með háttsemi sinni.