Fréttir

Að vinna heima og sinna börnum

24.3.2020

Skipulag-heimavinnu_1585036355376Staðan í þjóðfélaginu hefur heldur betur tekið stakkaskiptum á skömmum tíma. Við stöndum frammi fyrir því að skipta þarf upp vinnustöðum til þess að forðast smit af völdum COVID-19 og sumir vinna að heiman ef mögulegt er. Skólar og leikskólar hafa skert viðveru nemenda sinna eða jafnvel lokað. Þetta veldur því að foreldrar og börn eru saman heima bróðurpart dagsins og foreldrarnir leitast við að standa skil á vinnutengdum verkefnum samhliða því að annast börn sín. Við þær aðstæður geta foreldrar upplifað togstreitu sem aftur getur þróast út í streitu. Enn fremur þarf að taka tillit til þess að aðstæður heima fyrir geta verið misjafnar hjá fólki, bæði varðandi heimilið sjálft og fjölskylduna. Sumir búa við góðar aðstæður og eru skipulagðir á meðan aðrir glíma við erfiðar fjölskylduaðstæður, s.s. ofbeldi eða veikindi.

Þetta þurfa atvinnurekendur að hafa í huga þegar þeir skipuleggja, í samráði við starfsmenn, hvernig vinnu á að vera háttað næstu vikurnar.

Til umhugsunar fyrir atvinnurekanda

  • Skilgreina þarf vel verkefnin í samráði við hvern og einn starfsmann.
  • Eru verkefnin raunhæf og vel afmörkuð?
  • Hvernig líður starfsmanninum með það skipulag sem lagt er upp með?
  • Hver eru sjónarmið starfsmannsins og aðstæður hans heima fyrir?
  • Hvað er hægt að gera til að minnka streitu og álag?
  • Er raunhæft að starfsmaður skili fullu dagsverki með börn á heimilinu sem þurfa fulla umönnun og aðstoð við heimanám?
  • Er skilningur sýndur á þeim aðstæðum sem starfsmaðurinn er í?

Til umhugsunar fyrir starfsmann

  • Hef ég skilgreint tímann sem ég hef til þess að vinna?
  • Er ég heiðarleg/ur gagnvart vinnuveitanda mínum um raunhæfan vinnutíma?
  • Hvað get ég gert til að minnka álag og streitu á meðan þessar sérstöku aðstæður vara?