Fréttir

Vinnuumhverfið og líkamsbeiting við heimavinnu

20.3.2020

Ástandið sem hefur skapast vegna veirunnar sem veldur COVID-19 sjúkdómnum veldur því að margir þurfa að vinna heima svo dögum skiptir.

Hér eru nokkur ráð til að gera vinnuumhverfið heima sem ákjósanlegast:

Stóll

Líkamsbeiting

Ef stillanlegur skrifstofustóll er ekki fyrir hendi er mikilvægt að muna að standa reglulega upp. Það á reyndar líka við þegar setið er á góðum skrifstofustól. Þá er jafnvel gott að skipta um stól einu sinni til tvisvar á dag ef hægt er. Það getur verið hvíld í því einu að skipta frá borðstofustól yfir á eldhússtól. Einnig getur verið gott að setja púða við bakið og/eða á sessuna ef stólar eru harðir.

Borð

Borðhæðin, miðað við stólinn, skiptir miklu máli. Vinnuhæðin, það er að segja sú hæð sem unnið er í, á að vera í olnbogahæð þegar setið er.

Ef borðið er of hátt:

Þá þarf að stilla stólinn hærra – ef mögulegt er. Ef ekki er hægt að hæðarstilla stólinn er hægt að sitja á púða eða á samanbrotnu teppi til þess að jafna hlutföllin á milli stóls og borðs. Munið að setja líka eitthvað undir fætur því hné eiga að vera í 90 gráður í setstöðu og fætur þurfa að hvíla á góðum undirstöðufleti. Hér er hægt að nota skammel, ef hann er fyrir hendi, þykkar stórar bækur, púða, samanbrotið teppi eða vaskafat á hvolfi... notum hugmyndaflugið!

Ef borðið er of lágt:

Þá þarf að setja upphækkun undir lyklaborðið – þannig að það sé í olnbogahæð. Munið að upphækkunin þarf að vera stöðug.

Að vinna standandi

Ekki eru allir svo heppnir að hafa hæðarstillanleg borð heima en þó getur verið mikil tilbreyting fólgin í því að standa við vinnu sína. Þegar unnið er standandi þarf lyklaborðið að vera um það bil fimm sentimetrum undir olnbogahæð. Hallið skjánum þannig að betur sjáist á hann og reynið að passa upp á að hálsinn sé í góðri stöðu. Ekki vinna of álút.

Lýsing

Best er að nota dagsbirtuna og að hún komi á hlið þegar verið er að vinna. Tölvuskjá ætti aldrei að stilla upp beint á móti glugga né þannig að birta frá glugga myndi óþægilegan glampa á tölvuskjáinn.

Hreyfing

Munið að standa upp með reglulegu millibili. Gott er að teygja úr sér og ganga aðeins um áður en sest er niður aftur