Fréttir

Hugleiðingar um verk- og vinnupalla

6.2.2015

Ég ætla að líta á öryggisþætti í byggingariðnaðinum. Nú hefur í töluverðan tíma staðið yfir vinna sem fagaðilar, ráðuneyti, hagsmunaaðilar og Vinnueftirlitið hafa í sameiningu unnið að en það er smíði nýrrar reglugerðar varðandi verk- og vinnupalla. Lítið sem ekkert miðar áfram þar sem aðila greinir á um hverjir eigi og megi standa að uppsetningu á slíkum pöllum.

Sjálfur hef ég verið í eftirliti í þessum geira og veit að þarna er ýmsu ábótavant, þ.e.a.s. þegar kemur að uppsetningu palla og vinnu í hæð. Í eftirlitinu hefur maður stundum á tilfinningunni að þeim sem vinna þessa hættulegu vinnu sé sama um sinn hag og annara. Verið er að gefa fyrirmæli varðandi vöntun á fallvörnum á verk- og vinnupöllum svo sem að vanti fótlista, þeir illa festir o.s.frv. Við slíkar aðstæður skapast mikil hætta fyrir þá starfsmenn sem vinna á pöllunum og skapar einnig hættu fyrir aðra starfsmenn sem vinna í kringum pallana. Í reglugerð nr. 331/1989 reglur um röraverkpalla (með leiðbeiningum) og reglugerð nr. 367/2006 reglur um notkun tækja er kveðið á um að vinnuveitandi á að tryggja sínum starfsmönnum öruggt vinnuumhverfi ásamt því að gera áhættumat á störfum.  

Hagsmunaraðilum í byggingariðnaði á Íslandi finnst ekki þörf á að herða eftirlit með verk- og vinnupöllum með þeim rökum að þetta sé kennt í iðngreinum. Þau rök halda ekki. Ég veit ekki betur en að í ökukennslu sé kennt að ekki megi keyra of hratt en samt er verið að taka menn fyrir hraðakstur. Því tel ég mjög nauðsynlegt að efla eftirlit og að hagsmunaaðilar nái saman varðandi öryggi sem snertir verk- og vinnupalla.

En til að koma aftur að spennunni sem er að myndast í byggingariðnaðinum getum við velt fyrir okkur hvaða þróun við viljum sjá varðandi öryggi við slíkar framkvæmdir. Margt hefur breyst á Íslandi undanfarin ár og má eflaust rekja eitthvað af því til þess að stjórnendur á byggingarvinnustöðum eru menntaðir erlendis og hafa komið með reynslu erlendis frá. Má segja að vitundarvakning hafi orðið hjá mörgum í þessum geira.

En ekki er allt betra sem kemur að utan og það verður að segjast að framkvæmdaraðilar hafa undanfarin ár sett meiri metnað í öryggismál og er það af hinu góða. Væntanlega má rekja metnaðinn til þess að farið var að reikna út hversu mikið er hægt að spara ef öryggisatriðin eru í lagi þ.e.a.s. að engin slys eða óhöpp verði. Lögð er áhersla á núllslysastefnu.

Ég ræddi við Brynjar Einarsson hjá Þingvangi ehf en þeir standa fyrir byggingaframkvæmdum á Lýsisreitnum svo kallaða. Ræddum við öryggismál í víðu samhengi en einnig barst talið að  öryggismálum hjá þeim. Sagði hann mér að Þingvangur ehf  legði mikla áherslu á að byggingaframkvæmdir séu öruggar í alla staði og þegar unnið er að jafn stórri framkvæmd eins og í gangi er á Lýsisreitnum, rúmlega 7 milljarðar, þá þarf nokkra aðila til þess að stýra öryggisþáttunum.

Mig langar í þessu samhengi til að varpa fram hugmynd varðandi öryggismál við byggingaframkvæmdir. Þannig  er að verkkaupi er ábyrgur fyrir gerð heilbrigðis- og öryggisáætlunar fyrir mannvirkjagerð. Hann getur framselt framkvæmdina en ekki ábyrgðina sjálfa. Það verður að segjast eins og er að sumir aðilar sem standa að framkvæmdum hafa ekki nægilega þekkingu eða reynslu þegar um öryggismál er að ræða. Þetta skapar oft mikla spennu þegar eftirlit fer fram. Því er einnig töluvert ábótavant að framkvæmdaraðilar hafi gert tilskilda áætlun um heilbrigði og öryggi fyrir verkframkvæmdina. Síðast og ekki síst þá hafa margir framkvæmdaraðilar ekki hugmynd um hvaða skyldur eru settar á þá og þess vegna getur skapast spenna á milli eftirlitsmanna og stjórnanda framkvæmda.

Í stærri verkum ætti að vera sérstakur aðili sem annast öryggis- og heilbrigðismál, ekki verkefnastjórinn eða staðarstjórinn. Í stærri verkum hefur staðarstjórinn ekki næga yfirsýn til að annast þessa hluti í viðbót við annað það sem að honum snýr. Spurning að gera eins og Bretar gera þ.e.a.s. öryggis- og heilbrigðishluti verksins fer í sérstakt útboð eins og gæðamálin, en trúlega er markaðurinn of lítill hér á landi nema þegar um er að ræða mjög stórar framkvæmdir.

Skylda ætti alla aðila sem stjórna verkframkvæmdum til að sitja námskeið varðandi gerð áhættumats og öryggis- og heilbrigðismál í byggingaframkvæmdum. Sá aðili ætti að þekkja bæði skyldur byggingageirans og regluramma hans ef hann á að vera fær um að sjá um þessi mál, ekki síst vegna þess að stór hluti vinnuslysa verður í byggingageiranum.

Í Bretlandi er uppsetning verk- og vinnupalla sérstök iðngrein og enginn aðili sem ekki hefur hlotið kennslu á þessu sviði má annast uppsetningu eða viðhald á þeim. Það verður að fara að hugsa meira um öryggismál í þessum geira hér á landi, mörg fyrirtæki eru að gera góða hluti hvað þetta varðar en það er þó víða mjög langt í land.

Hafa ber í huga að samkvæmt reglugerð 547/1996 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggisráðstafanir á byggingarvinnustöðum og við aðra tímabundna mannvirkjagerð stendur í 9. gr um persónuhlífar að nota skal hjálm og vera í öryggisskóm á meðan á framkvæmdum stendur, það er því slæmt að núna árið 2015 er enn misbrestur varðandi þessa hluti.

Í byggingageiranum er mikil reynsla varðandi öryggisþætti og spurning hvort ekki sé tímabært að halda ráðstefnu um öryggis- og heilbrigðismál fyrir byggingageirann. Einnig þarf að opna augu stjórnmálamanna fyrir vandanum til þess að knýja á um meira fjármagn til Vinnueftirlitsins svo hægt verði að viðhalda góðu eftirliti og efla fræðsluna í byggingageiranum. Ekki má gleyma að nefna þörfina fyrir aukningu í rannsóknum á þessu sviði en þær þarf að styrkja hérlendis til að auka þekkingu og forvarnir í byggingageiranum. Frændur okkar í Svíþjóð, Noregi og Danmörku gera vel á þessu sviði en Íslendingar verða að bæta í til að standa sig vel líka.

Guðmundur  Þ. Sigurðsson verkefnastjóri Fræðsludeildar