Fréttir

Atvinnusjúkdómar og frumvarp um slysatryggingar

6.2.2015

Þetta er þrátt fyrir að fyrir liggi að atvinnusjúkdómar eru tilkynningarskyldir af hálfu lækna til Vinnueftirlitsins samkvæmt 79. gr. laga nr. 46/1980 og reglugerð nr. 540/2011 um tilkynningu og skráningu atvinnusjúkdóma. Í reglugerðinni er vísað til þess að við greiningu og tilkynningu á atvinnusjúkdómum skuli læknirinn viðhafa ákveðið vinnulag og hafa í huga atvinnusjúkdómalista Evrópusambandsins. Þessi tilkynningarskylda hefur ekki virkjast nema að litlu leiti þrátt fyrir reglugerðina. Í dag hafa að meðaltali innan við 20 atvinnusjúkdómar verið tilkynntir árlega til Vinnueftirlitsins sl. 15 ár. Þetta þýðir mögulega og líklega að hópur manna er enn að vinna í umhverfi sem getur valdið heilsutjóni sem hægt er að fyrirbyggja með virku tilkynningarkerfi.

Með þessu eru starfsmenn á Íslandi settir skör lægra en starfsmenn annars staðar á Norðurlöndum og í öðrum nágrannalöndum sem við viljum bera okkur saman við, þar sem virkar atvinnusjúkdómavarnir grundvallast á kerfi tilkynninga um atvinnusjúkdóma. Jafnframt er tryggingarleg staða starfsmanna á Íslandi í dag m.t.t. atvinnusjúkdóma verri en á hinum Norðurlöndunum. Í Danmörku eru t.d. tilkynntir um 19.000 atvinnusjúkdómar á ári. Af þeim er um fimmtungur viðurkenndur sem atvinnusjúkdómur eftir skoðun yfirvalda. Ef við gerum ráð fyrir að danskur vinnumarkaður sé um 15 sinnum stærri en sá íslenski þá má gera ráð fyrir um 270 tilkynningum um atvinnusjúkdóm hér á landi. Við missum því mögulega af meir en 250 tilvikum þar sem koma má í veg fyrir atvinnutengt heilsutjón og mögulega örorku vegna þess.

Vinnueftirlitið leggur ríka áherslu á að allt sé gert til að örva tilkynningarferli atvinnusjúkdóma og koma þannig í veg fyrir frekara atvinnutengt heilsutjón. Ein leið til þess er að allir tilkynningarskyldir atvinnusjúkdómar verði gerðir bótaskyldir með sama hætti og vinnuslys. Vinnueftirlitið hefur í umsögn sinni um framvarpið lagt til að ákvæðinu í lögunum verði breytt þannig að tryggt verði að atvinnusjúkdómar verði bótaskyldir.

Með þessu yrði stigið stórt skref  til þess að verjast atvinnusjúkdómum en grundvöllur í þeirri vörn er að vita hvar þeirra verður vart. Vinnueftirlitið hvetur alla sem láta sig þetta mál varða að berjast fyrir því að atvinnusjúkdómar verði tilkynntir og bættir. Með því mun stórfé sparast í íslensku samfélagi.

Kristinn Tómasson yfirlæknir Vinnueftirlitsins