Fréttir

30 ár frá efnaslysinu í Bhopal á Indlandi

9.12.2014

Gufurnar voru þyngri en  loft og breiddust út með jörð og urðu því börn fyrir meiri eitrun en þeir fullorðnu. Um 40 tonn af metýl ísósýanati láku úr tanknum ásamt eitruðum niðurbrotsefnum. Samkvæmt opinberum tölum urðu yfir hálf milljón manna fyrir eitrinu. Rúmlega tvö þúsund manns fórust strax en í allt létust á fjórða þúsund manns, þar á meðal fjöldi barna, af áverkum eiturefnanna. Auk þess urðu þúsundir manna fyrir varanlegum heilsuskaða í slysinu.

Margir af þeim sem fórust urðu fyrir mikilli bráðaeitrun sem kom fyrst fram sem slímhimnuæting og vökvamyndun í öndunarfærum, andnauð og köfnun í kjölfarið. Einnig skemmdu eiturefnin önnur líffæri s.s. lifur og nýru, vökvamyndun varð í heila og blóðrásartruflanir og drógu slíkir áverkar marga til dauða. Andvana fæðingar og barnadauði margfölduðust í kjölfar slyssins. Slysið varð hundruðum þúsunda manna líkamlegt og andlegt stóráfall. Slysið spillti einnig fæðuöflun á svæðinu. Mikill dýradauði varð og skemmdir á ræktarlandi.

Ekki er enn vitað í smáatriðum hver var grunnorsök slyssins og eru nokkrar kenningar uppi. Svo virðist sem vatn og jafnvel fleiri aðskotaefni, s.s. klórefni, hafi komist í tankinn með metýl ísósýanatinu. Við það urðu efnahvörf og mikil hitamyndun sem varð til þess að tankurinn rofnaði. En hvað svo sem gerðist í aðdraganda slyssins telja sérfræðingar nú að einhverjar gerðir manna, e.t.v. mannleg mistök, vanræksla eða skemmdarverk hafi orðið til þess að tankurinn rofnaði og eitrið komst út í umhverfið.

Bhopal slysið olli straumhvörfum í skoðun manna á vörnum gegn stórslysum af völdum hættulegra efna. Fyrirtæki tóku að skipuleggja sín öryggismál betur. Stjórnvöld víða um heim, þar á meðal í Evrópu og einnig hér heima, settu reglur um stórslysavarnir og öryggisstjórnun starfsstöðva þar sem mikið er af hættulegum efnum.  Þar er mælt fyrir um að þeir sem reka stöðvarnar tryggi skipulegar varnir gegn stórslysum og að nágrannar stöðvanna geti fylgst með og fengið allar nauðsynlegar upplýsingar um hættur sem af stöðvunum stafa.

Á Íslandi eru nú ríflega tveir tugir slíkra stöðva og er hægt er að finna upplýsingar um þær á heimasíðu Vinnueftirlitsins. Engin þeirra er þó með eins  mikið af hættulegum eiturefnum og voru í Bhopalverk-smiðjunni en leifarnar af henni standa enn sem mengað járnarusl í gróðurgrænu umhverfi Indlandsskagans.