Fréttir

Heilsufarsskoðanir starfsmanna á gosstöðvum

7.11.2014

Eldgosið í Holuhrauni  er umfangsmikið og því hefur fylgt mikil gasmengun. Vinnuumhverfi í nágrenni gossins er þannig ekki nema fyrir hraustustu starfsmenn. Vinnuveitendur hafa skyldur gagnvart starfsmönnum m.t.t. viðeigandi verkefna fyrir þá.  Ljóst er að einstaklingar með undirliggjandi sjúkdóma eða veikindi eiga ekki að vera á vettvangi gosstöðvanna við störf.

Lagaákvæði um heilsuvernd og heilsufarsskoðanir

Vinnueftirlitið vill vekja athygli á því að í lögum nr. 46/1980 er fjallað um heilsufarsskoðanir
en þar segir m.a. í 67 gr.: “Starfsmenn skulu eiga kost á heilsufarsskoðunum á kostnað atvinnurekanda áður en þeir eru ráðnir til starfa, meðan þeir eru í starfi og þegar við á eftir að þeir eru hættir störfum, enda séu starfsskilyrði þeirra slík að heilsutjón geti hlotist af og ástæða til þess að ætla að á þann hátt megi koma í veg fyrir eða hefta atvinnusjúkdóma og atvinnutengda sjúkdóma.”


Þá segir í 69 grein m.a. “Atvinnurekandi skal tryggja að heilsuverndareftirlit, læknisskoðanir, mælingar og rannsóknir valdi ekki tekjutapi starfsmanna. Starfsmönnum og fyrrverandi starfsmönnum ber skylda til að gangast undir eftirlit, skoðanir, mælingar og rannsóknir samkvæmt reglum þeim, sem gilda á hverjum tíma.” 

Þá segir í 71. gr.: “Ef einstakir starfsmenn eða hópar manna vinna við skilyrði, er talist geta varasöm heilsu þeirra eða öryggi, skal Vinnueftirlit ríkisins hlutast til um, að jafnframt eftirliti með starfsmönnum sé veitt aukin fræðsla um þá slysa- og/eða sjúkdómshættu, sem kann að vera bundin við starfsumhverfi þeirra, sbr. 14. gr. og 78. gr., staflið e, laga þessara.”

Í 66 grein er fjallað um heilsuvernd starfsmanna. Þar segir: “Atvinnurekandi ber ábyrgð á að gerð sé áætlun um heilsuvernd sem byggð er á áhættumati, sbr. 65. gr. a, þar sem meðal annars kemur fram áætlun um forvarnir, þar á meðal um aðgerðir sem grípa þarf til í því skyni að draga úr atvinnutengdum sjúkdómum og slysum.

Markmið heilsuverndar er að:

  1. stuðla að því að starfsmenn séu verndaðir gegn hvers konar heilsuvá eða heilsutjóni sem stafa kann af vinnu þeirra eða vinnuskilyrðum,
  2. stuðla að því að vinnu sé hagað þannig að starfsmenn fái verkefni við hæfi og stuðla að andlegri og líkamlegri aðlögun þeirra að starfsumhverfi,
  3. draga úr fjarvistum frá vinnu vegna veikinda og slysa með því að auka öryggi og viðhalda heilsu starfsmanna á vinnustað,
  4. stuðla að andlegri og líkamlegri vellíðan starfsmanna.

Vinnuumhverfi á gosstöðvum og álag

Það er  ljóst að vinnuumhverfi á gosstöðvum hlýtur að flokkast undir 67. grein, þar sem starfsskilyrði þeirra sem þar vinna eru þannig, að heilsu þeirra getur stafað hætta af, ef ekki er gripið til varna. Þá þarf að tryggja að starfsmenn fái verkefni við hæfi. 

Miðað við eðli starfa, umtalsverða hættu á efnamengun og líkur á að starfsmenn þurfi að vinna með persónuhlífar í lengri tíma og að öll önnur skilyrði eru mögulega mjög líkamlega krefjandi er ljóst að nauðsynlegt er að kanna heilsufar starfsmanna vel sem þarna starfa. 

Ljóst er að störf þarna eru ekki við hæfi starfsmanna með tiltekna sjúkdóma s.s. hjarta - og æðasjúkdóma, öndunarfærasjúkdóma, eða sjúkdóma í stoð-, geð- og taugakerfi sem hamla getu manna til átaka og eða verka þar sem krafist er viðbragðsflýti, góðrar skynjunar og snerpu. 

Heilsufarsskoðanir starfsmanna

Til að tryggja öryggi og heilsu starfsmanna telur Vinnueftirlitið mikilvægt að starfsmenn sem vinna á vegum fyrirtækja og stofnana á gosstöðvum  fari í læknisskoðun, til þess að tryggja að þeir sem vinni þar hafi heilsu til verksins. 

Vakni grunur um heilsutjón vegna starfans er mikilvægt að starfsmönnum sé boðin heilsufarsskoðun á vegum vinnuveitanda. Þá er brýnt að starfsmönnum séu kynntar mögulegar heilsufarsáhættur vegna starfans. Jafnframt er minnt á skyldur varðandi tilkynningu um atvinnusjúkdóma til Vinnueftirlitsins.

Virðingarfyllst
Kristinn Tómasson, M.Sc., Dr.med
yfirlæknir Vinnueftirlitsins