Fréttir

Bylting í öryggismálum við löndun?

25.3.2014

Vinnuslys varð í maí 2011 við löndun úr skipi á Dalvík þegar stæða af fiskkerum hrundi yfir löndunar starfsmann sem slasaðist við það alvarlega. Þegar slysið varð var búið að krækja í neðsta karið í stæðunni sem hífa átti upp úr lest skipsins og hífa stæðuna um einn metra frá lestargólfinu. Munu þá tvö festieyru neðsta karsins, þess sem krækt var í, hafa gefið sig og stæðan hrunið á starfsmann sem vann við löndunina.

Í framhaldi af slysinu fór í gang vinna sem miðaði að því að auka öryggi við löndun úr togurum og hefur það leitt af sér svokallað Kristjánsbúr. Af þessu tilefni hafði Fréttabréf um Vinnuvernd samband við Einar Svanbergsson svæðisstjóra hjá Vélsmiðjunni Hamri á Akureyri en þar hefur hönnunin og smíðin aðallega verið unnin.

Gefum Einari orðið:

,,Það var að frumkvæði yfirmanna hjá Samherja að þessi vinna fór í gang eftir slysið á Dalvík. Hugsunin var að koma í veg fyrir fleiri svona löndunarslys. Niðurstaðan var að smíðað var búr sem tekur stæðu með allt að fjórum fiskikerum í einu. Stæðan er sett inn í búrið með lyftara og þegar búrið er híft lokast það sjálfkrafa þannig að ekki er hætta á að kerin hrynji út úr því. Ekki er heldur húkkað í kerin þannig að þó þau séu skemmd, t.d. á eyrunum sem húkkað er í við löndun með gamla laginu, þá skapast engin hætta vegna slíks við löndun með búrinu.

Búrið er smíðað af okkur í Hamri og búið er að vinna áhættu- og samræmismat og CE-merkja búrið. Þar með uppfyllir það þær kröfur sem gerðar eru í Evrópu. Nokkur búr eru komin í notkun og fleiri eru í smíðum. Tel að þetta muni verða í almennri notkun innan ekki langs tíma því auk þess að vera öruggara en að landa með gamla laginu þá sparar þetta mannskap við löndunina auk þess sem löndunin gengur hraðar en með gamla laginu.”

Hérna er hægt að nálgast myndband um Kristjánsbúrið og notkun þess: https://youtu.be/puZlTqkfplU