Fréttir

Sænskur dómur vegna eineltis

11.3.2014

Málavextir voru þeir að maður sem hafði starfað í litlu sveitarfélagi og hafði gengið vel allt þar til að nýr yfirmaður var ráðinn árið 2009. Nýi yfirmaðurinn gagnrýndi ítrekað starfsmanninn með hætti sem starfsmanninum fannst niðurlægjandi.  Hann bað um aðstoð yfirmanna yfirmannsins vegna þessa og bað einnig um flutning í starfi.  Maki og samstarfsmenn leituðu einnig til yfirmanna nýja yfirmannsins. 

Starfsmanninum var vísað til læknis og sálfræðings til þess að meta hann og kringumstæður hans, en ekki var gripið til beinna aðgerða af hálfu yfirmanna nýja yfirmannsins. Í júní 2010 fyrirfór starfsmaðurinn  sér.

Það var mat þeirra sem skoðuðu sögu mannsins að veikindi hans sem leiddu til sjálfsvígsins væru atvinnutengd.

Yfirmenn yfirmannsins voru í framhaldinu dæmdir sekir um að hafa brotið vinnuverndarlögin með því að grípa ekki til aðgerða til þess að bæta vinnuumhverfi starfsmannsins. Samkvæmt dómnum mátti þeim vera ljóst að þessi samskipti milli starfsmannsins og næsta yfirmanns voru mjög íþyngjandi fyrir starfsmanninn en þau létu hjá líða að uppfylla kröfur laganna um að grípa til allra nauðsynlegra aðgerða til þess að fyrirbyggja andlegt heilsutjón, slys og líkamlega sjúkdóma.
Gerandinn í eineltismálinu var hins vegar ekki dæmdur á grundvelli þessa.

Sjá nánar í frétt Arbeidsliv i Norden.