Fréttir

Sprengingar á Lýsisreitnum

Aðkoma Vinnueftirlitsins

18.2.2014

Þessar sprengingar hafa valdið íbúum og starfsmönnum í nærliggjandi húsum ónæði og sumir telja að tjón hafi orðið á eignum. Fjöldi kvartana hafa af þessum ástæðum borist Vinnueftirlitinu.

Starfsmenn Vinnueftirlitsins hafa frá 13. janúar s.l. farið alls fjórum sinnum í eftirlitsheimsóknir í kjölfar kvartana vegna sprenginga á Lýsisreitnum auk þess sem þeir hafa  tekið  þátt í fundum sem haldnir hafa verið með íbúum, framkvæmdaaðilum og byggingarfulltrúa. Farið hefur verið yfir niðurstöður titringsmælinga og skoðuð bor-, hleðslu og sprengiplön fyrir sprengingarnar. Til að fylgjast með framkvæmd sprenginganna hefur Vinnueftirlitið  farið fram á vikulegar útskriftir mælinga á meðan að framkvæmdum stendur.

Í tengslum við framkvæmdirnar hefur verið komið fyrir tveimur mælum er mæla bylgjuhraða og tíma á milli sprengiraða. Mælarnir, sem staðsettir hafa verið eftir framvindu verksins, hafa sýnt að sprengingar þær er framkvæmdar hafa verið eru innan þeirra marka sem reglugerð nr. 684/1999  um sprengiefni gerir ráð fyrir. Þar eru mörk sett fyrst og fremst út frá hættu á skemmdum en ekki sérstaklega öðrum þáttum eins og upplifun og ónæði þeirra er búa og vinna innan áhrifasvæðis sprenginganna.

Í ljósi kvartana og upplifunar íbúa á svæðinu taldi Vinnueftirlitið rétt að skoðaðar yrðu leiðir til að minnka „sprengjuaflið” í samráði við framkvæmdaraðila verksins. Við því hefur orðið af hálfu Þingvangs ehf., sem er framkvæmdaraðili verksins, jafnvel þó af því hljótist aukinn kostnaður. Það er von Vinnueftirlitsins að með þeim breytingum er gerðar hafa verið á skipulagi og hleðslu við sprengingar á Lýsisreitnum verði öryggi gegn skemmdum betur tryggt og óþægindi minni en áður var.