Fréttir

Vinnuverndarvikan 2001 - Varnir gegn vinnuslysum

25.5.2001

Vinnuverndarvikan, sem er samstillt átak vinnuverndarstofnana í Evrópu undir forsystu Vinnuverndarstofnunarinnar í Bilbao, verður haldin hérlendis vikuna 14.-20. október nk.

Kjörorð vinnuverndarvikunnar verður: Varnir gegn vinnuslysum.

Vinnuslys eru enn í dag algeng. Vinnuslysaskrá Vinnueftirlitsins skráir árlega yfir 1200 vinnuslys, samkvæmt eftirfarandi reglum um tilkynningu vinnuslysa: Alvarleg vinnuslys skal tilkynna strax til Vinnueftirlitsins og lögreglu. Slys, sem valda fjarvist a.m.k. einn dag auk dagsins sem þau verða, skal tilkynna á þar til gerðum eyðublöðum til Vinnueftirlitsins. Þetta þýðir að óhjákvæmilega eru mörg vinnuslys sem ekki eru tilkynnt. Þetta sést glögglega þegar litið er í tölur frá slysadeild Landspítala Háskólasjúkrahúss þar sem skráð eru til muna fleiri slys sem vinnuslys en sést í skráningu Vinnueftirlitsins. Þetta mun horfa til bóta með samræmdri Slysaskrá Íslands en þá munu væntanlega einnig koma til skráningar vinnuslys sjómanna og vinnuslys flugáhafna. 

Vinnueftirlitið mun hafa samvinnu um framkvæmd vikunnar við ýmsa aðila, s.s. Slysvarnarráð Íslands, aðila vinnumarkaðarins, heilbrigðisyfirvöld og fleiri.

Í tengslum við vinnuverndarvikuna verður reynt að fá yfirsýn yfir umfang vinnuslysa hérlendis og jafnframt reynt að skoða þau með tilliti til áhættuþátta. Auk þess verður reynt að fá aðila, sérfróða um ýmsa þætti vinnuslysa og varna við þeim, til þess að skrifa greinar í fjölmiðla og fagblöð um eðli vinnuslysa, afleiðingar þeirra og síðast en ekki síst varnir gegn þeim. Í tengslum við vikuna verður óskað eftir því að iðn-, tækni- og verkmenntaskólar taki vinnuslysavarnir enn meir inn í kennsluna en hingað til hefur verið gert. Þetta er sérlega mikilvægt þegar litið er til þess að algengast er að ungt fólk, sem er að feta sig inn á vinnumarkaðinn, verði fyrir vinnuslysum. Vonast er til að hægt verði búa til kynningarmyndband um varnir gegn vinnuslysum sem nota mætti í fræðslu og endurmenntunarstarfi.

Í vinnuverndarvikunni sjálfri verður átaksverkefni hjá Vinnueftirlitinu þriðjudaginn 16. október þar sem starfsmenn þess munu í fyrirtækjaskoðunum sínum beina augum sínum að hættum á fallslysum á vinnustað. Jafnframt þessu verða aðilar vinnumarkaðarins hvattir til þess að skoða slysagildrur á vinnustöðum á þessum degi. Þann 17. október munu augun beinast að slysavörnum í tengslum við lyftara og hleðslu þeirra. Á þeim degi verður skoðunarátak á vegum Vinnueftirlitsins á þessum tækjum og er ráðgert að það verði á landsvísu . Skoðun lyftara og hættum þeim tengdum er samnorræmt verkefni. Fimmtudaginn 18. október er síðan gert ráð fyrir málþingi um vinnu-slysavarnir. Þar verður áhersla á sem breiðasta sýn á vandann og verða fyrirlesarar úr röðum þeirra samstarfsaðila sem getið er um hér að ofan. Ljóst er að varnir gegn vinnuslysum er eitt af stærstu málum vinnuverndar. 

Markmið með vikunni er því að allir á vinnumarkaði geri sér ljóst hversu mikilvæg þessi vinna er og jafnframt að aldrei megi sofna á verðinum. Kristinn Tómasson, yfirlæknir hjá Vinnueftirlitinu