Fréttir

Vinnuverndarátak í grunnskólum landsins

19.1.2006

Kannanir sem gerðar hafa verið á vinnuumhverfi grunnskóla benda til þess að starfsmenn skóla verði fyrir talsverðu félagslegu, andlegu og líkamlegu álagi við störf sín.
Vinnuverndarátaki í grunnskólum landsins hefur verið hrundið af stað með það að markmiði að efla innra vinnuverndarstarf og bæta aðbúnað, hollustuhætti og líðan starfsmanna.
Verkefnið skiptist í tvo þætti; upplýsingaátak og eftirlitsátak.

Upplýsingaátak:

Með upplýsingaátakinu er markmiðið að upplýsa stjórnendur grunnskólanna um skyldur þeirra varðandi vinnuverndarstarf í skólunum, hvetja þá til að koma á virku innra vinnuverndarstarfi og hjálpa þeim af stað með gagnlegum upplýsingum og námskeiðum.

Hér á heimasíðunni sem helguð er vinnuverndarátakinu í grunnskólum hefur verið tekið saman ýmislegt gagnlegt sem tengist starfi grunnskóla. Hér er t.d. að finna flestar íslenskar greinar um líðan starfsmanna í grunnskólum og upplýsingar um rit sem fjalla um það efni. Jafnframt eru hér innlendir og erlendir tenglar á gagnlegar heimasíður um skólamál.

Vinnueftirlitið mun, eftir þörfum, standa fyrir kynningu á gerð áhættumats á störfum í grunnskólum.

Vinnueftirlitið mun standa fyrir hefðbundnum námskeiðum fyrir öryggistrúnaðarmenn og öryggisverði sem starfsmenn skólanna geta sótt og mun þar að auki standa fyrir sérsniðnum námskeiðum fyrir starfsmenn þeirra. Stjórnendur eru hvattir til að skrá sína öryggistrúnaðarmenn og öryggisverði á námskeið sem fyrst til að gefa þeim kost á að læra um vinnuverndarmál og fræðast um hlutverk sitt svo þeir geti stuðlað að öflugu  vinnuverndarstarfi innan skólanna.

Eftirlitsátak:

Eftirlitsátak í grunnskólum fer fram í febrúar og mars 2006. Það byggist á heimsóknum eftirlitsmanna Vinnueftirlitsins í alla grunnskóla landsins þar sem þeir dreifa upplýsingaritum og gefa fyrirmæli um að komið sé á öryggistrúnaðarmannakerfi og að gert verði áhættumat á störfum starfsmanna grunnskólanna.

Til að ná góðum árangri með vinnuverndarátakinu er mikilvægt að stjórnendur skólanna og starfsmenn vinni saman og að virku vinnuverndarstarfi sé komið á.