Fréttir

Vinnuvernd í heilbrigðis- og umönnunarstörfum

20.11.2007

NOVO er verkefni sem hlotið hefur styrk Norrænu ráðherranefndarinnar. Verkefnið verður til fyrir frumkvæði nokkurra aðila á Norðurlöndum sem unnið hafa að rannsóknum á starfsumhverfi í heilbrigðis- og umönnunargeiranum. Tilurð verkefnisins mótast í kringum það að erfitt hefur verið að fá góða yfirsýn yfir og finna góðar lausnir á vinnuverndarmálum í þessum geira.  Er þetta rakið til þess að ekki hefur verið horft nægjanlega til samspils krafna um gæði, góðra vinnubragða og fagmennsku, samhliða góðum árangri, mikilli framleiðni og góðu vinnuumhverfi. Kröfur um aukna framleiðni eða aukin afköst eru áberandi í heilbrigðisgeiranum í dag samhliða vaxandi verkefnum, bæði vegna meiri kunnáttu og hækkandi aldri þjóðanna.  Þetta kallar á að samspil, gæða afkasta og vinnuumhverfis verði skoðað. Það er álit þeirra sem standa að verkefninu að án þess verði ekki hægt að taka á vaxandi vinnuverndarmálum í þessum starfsgreinum.
Fyrsta skref í verkefninu var að kalla til hóp aðila sem unnið hafa að rannsóknum sem nýst gætu í þessu tilliti eða taka á ofangreindum þáttum. Af því tilefni var rúmlega 30 aðilum boðið að taka þátt í fundi dagana 13. til 14. nóvember 2007 sem haldinn var í  Norræna lýðheilsu háskólanum í Gautaborg. Héðan frá Íslandi var Sigrúnu Gunnarsdóttur hjúkrunarfræðingi á Landspítala boðið að kynna rannsóknir sínar sem tengjast þessu efni.
Þrjár megin rannsóknarstefnur til að takast á við þennan vanda komu fram. Frá Noregi, s.k. IKT , sem byggir á að leysa, eða nálgast vandan með auknum og betri tæknilegum samskiptalausnum. Frá Svíþjóð, kom s.k.?stjórnunarlausnir (ledelse)?, sem grundvallast á að tryggja  getu og tækifæri stjórnenda til þess að glíma við vandann sem og að tekið sé á vandanum á réttum stigum.  Frá Danmörku var kynnt s.k. ?mögur leið án streitu? (lean without stress) sem grundvallast á iðnaðarlausnum eins og þekktar eru í framleiðslu bíla og miðast við að lágmarka tvíverknað og eyða dauðum tímum hjá starfsfólki.
Daginn eftir ráðstefnuna var farið yfir þessar niðurstöður sem og aðrar sem kynntar voru. Það er ljóst að engin þessara stefna tekur fullnægjandi á vandanum og frekari rannsókna er þörf. Næstu skref verður að halda fundi þar sem rannsakendur hitta lykilaðila úr heilbrigðisgeiranum til þess að ræða þessar stefnur og aðrar nánar. Gert er ráð fyrir að í maí og júní 2008 verði haldnir fundir í Danmörku um ?lean?, í Svíþjóð um ?ledelse? og í Noregi um ?IKT?.  Þá er einnig gert ráð fyrir fundi í Finnlandi en ekki hefur verið ákveðið efni eða þema fyrir þann fund. Þessir fundir verða opnir fyrir lykilaðila úr heilbrigðisgeiranum frá öllum Norðurlöndum.  Bráðlega verður opnaður vefur fyrir NOVO þar sem nálgast má þessar upplýsingar og úrdrætti úr erindunum sem haldin voru í Gautaborg.
Þeir sem vilja fá tölvupóst með upplýsingum um netið geta sent Jörgen Winkel forsvarsmanni hópsins tölvupóst á netfangið: jorgen.winkel@av.gu.se eða haft samband við undirritaðan.

Kristinn Tómasson dr.med
Yfirlæknir vinnueftirlitsins