Fréttir

Vinnuvernd á tímum efnahagsþrenginga

15.10.2009

Evrópska vinnuverndarstofnunin (EU-OSHA) hefur nýlega birt niðurstöður könnunar sem framkvæmd var á vormánuðum 2009 meðal 27 Evrópuþjóða. Niðurstöður sýna að 57% þátttakenda telja að á síðastliðnum 5 árum hafi vinnuumhverfi batnað með tilliti til heilsu og öryggis. Álíka stórt hlutfall, eða 61% þátttakanda telja að þær efnahagsþrengingar sem nú ganga yfir geti haft neikvæð áhrif á heilsu og öryggi á vinnustöðum og þar með snúið við þeirri jákvæðu þróun sem átt hefur sér stað. Í könnuninni kom jafnframt fram að 57% þátttakanda líta til launa þegar þeir íhuga að breyta um starf, 53% horfa til starfsöryggis en 36% horfa til heilsu og öryggis á vinnustað. Þetta getur bent til þess að nú þegar atvinnuleysi og óstöðugleiki á vinnumarkaði eykst er frekar horft til starfsöryggis en heilsu og öryggis á vinnustað.
Forstjóri evrópsku vinnuverndarstofnunarinnar, Jukka Takala hvetur fyrirtæki og stofnanir til að huga vel að vinnuvernd á þessum tímum. Á vef evrópsku vinnuverndarstofnunarinnar er haft eftir honum að sú hætta er fyrir hendi að þegar harðnar í ári grípi fyrirtæki til þeirra ráða að draga úr kostnaði við heilsu og öryggi á vinnustöðum. Slíkar aðgerðir geta verið skammvinnar og til þess fallnar að vandamál komi fram síðar meir. Allt til þess að því betur sem fyrirtæki sinna vinnuverndarþáttum því afkastameiri eru þau.
Ýmsar rannsóknir hafa sýnt að niðurskurður hefur áhrif á líðan og heilsu starfsfólks. Í þeim efnum má t.d. nefna rannsóknir sem gerðar voru í Finnlandi á tímum efnahagsþrenginga þar í landi, á 10. áratug síðustu aldar. Niðurstöður þeirra rannsókna gefa til kynna að heilsuefling á vinnustöðum er mikilvæg þegar grípa þarf til niðurskurðar. Það er meðal annars byggt á því að við samanburð á hópum starfsfólks sem annars vegar starfaði í stofnunum þar sem skorið var niður og hinsvegar þar sem ekki var skorið niður, voru veikindafjarvistir tíðari meðal starfsfólks í stofnunum þar sem skorið hafði verið niður. Þetta mátti meðal annars rekja til þess að þar upplifði starfsfólk meira álag en það starfsfólk sem starfaði í stofnunum þar sem ekki var skorið niður (1). Mikill kostnaður getur fallið til vegna veikindafjarvista. Árið 2006 var áætlaður kostnaður vegna veikindafjarvista á Íslandi 26 milljarðar kr. en ofan á þá fjárhæð bætist síðan kostnaður vegna röskunar og staðgengla þeirra sem eru fjarverandi (2). Hagur fyrirtækja og stofnana er því mikill í að koma í veg fyrir heilsuvanda starfsfólks og er það best gert með því að huga að vinnuvernd. Ekki má gleyma að vinnuvernd er mikilvægust fyrir starfsfólkið sjálft.

Heimildir:
1. Vahtera, J., Kivimäki, M. og Pentti, J. (1997). Effect of organisational downsizing on health of employees. Lancet, 350(9085), 1124-1128.
2. Inpro (2007). Veikindafjarvistir 2000-2006 samkvæmt gagnagrunni InPro.