Fréttir

Vinnuvernd á jólaföstu

16.12.2005Ráðningar starfsmanna og uppsagnir hafa ekki verið hefðbundið verkefni þeirra sem vinna við vinnuvernd. Þrátt fyrir það er ljóst að þetta eru iðulega ráðandi augnablik hvað varðar líðan og heilsu starfsmanna. Fréttir af uppsögnum eru orðnar daglegt brauð. Gildir það einu hvort um ræðir þjálfara íþróttaliðs, sem hefur tapað leik, yfirlækni sem stundar starf sitt af kostgæfni og nýtur virðingar sjúklinga sinna  og annarra en er ósammála stjórnendum um stefnu og markmið í rekstri fyrirtækis, ritstjóra sem ?verður á? að mati stjórnar eftir flekklausan langan feril, framkvæmdastjóra fyrirtækis sem virðist reka það með prýði, en nýir hluthafar nokkurra prósenta vilja inn sinn mann í nafni nýrrar stefnu. Þessi harka sem fréttir af þessu tagi lýsa er alþjóðlegt fyrirbæri og virðist fara vaxandi en á því skortir rannsóknir.

Almennum starfsmönnum er líka sagt upp

Það er hins vegar ekki sagt frá því í fjölmiðlum þegar ?almennir starfsmenn? verða fyrir uppsögnum af þessu tagi þar sem duttlungar ráða ekki minna um uppsögn en faglegir þættir er lúta að frammistöðu starfsmannsins og ábata fyrirtækisins af hans vinnu. Þessir duttlungar geta verið margbreytilegir, til dæmis að stjórnendur eru að sýna valdi sitt og segja öðrum með uppsögninni að ef þeir hlýði ekki þá fari eins fyrir þeim og þeim verði sagt upp. Annað dæmi er ráðning á starfsmönnum til  fyrirtækja og stofnana þar sem sjónarmiðið að hygla vinum og vandamönnum ríkir á kostnað fagmennsku og hvað fyrirtækinu kemur best.

Það er mögulegt að til skamms tíma geti stjórnun af þessu tagi leitt til hagræðingar, meiri hlýðni starfsmanna, meiri gróða eða annars fjárhagslegs ábata. Það er hins vegar líka ljóst að starfsmannastefna sem þessi dregur úr sjálfræði starfsmanna og frumkvæði. Samfara því verður minni fyrirtækjahollusta, þ.e. starfsmaðurinn stekkur frá borði ef illa gengur í stað þess að leggja fyrirtækinu lið á erfiðum tímum, með þau rök í huganum að, ?þeim er sama um mig?. Þetta leiðir til þess að afköst starfsmannsins, sérlega á breytingartímum minnka. Leiða má að því líkum að starfsmenn í umhverfi sem þessu verði hættara við að kulna í starfi en jafnframt bíður svona umhverfi upp á að leitað sé að blóraböggli, m.ö.o. einelti verður til. Ljóst er að þeir sem eru veikir eða viðkvæmir á geði þola þetta ferli illa. Þetta vekur upp spurningar sem þarf að rannsaka þ.e. hvort ferli sem þetta tengist auknum fjölda einstaklinga á örorku vegna geðsjúkdóma en án efa þarf að leita að fleiri þáttum í vinnuumhverfinu til að skýra þá þróun. Það liggur þó fyrir í nýlegri grein í Læknablaðinu að algengi geðraskana hefur lítið breyst frá 1984 til 2002 að telja, þannig að skýringin liggur því ólíklega þar.

Umburðarlyndi er nauðsyn ? uppsagnir eru neyðarbrauð

Það er mjög mikilvægt að undirstrika að eitt af alvarlegustu áföllum sem menn verða fyrir, er uppsögn á starfi, jafnvel þó að á því séu réttmætar og eðlilegar skýringar. Flestir atvinnurekendur, eru sér meðvitaðir um þetta og vita að starfsmannastefna þar sem starfsmönnum, jafnt lykilstarfsmönnum sem öðrum er sagt upp vegna duttlunga gengur hvorki til lengri eða skemmri tíma. Þrátt fyrir þetta og mikla umræðu og fræðslu um stjórnun, þá virðast stjórnunarhættir sem lýst er að ofan síður en svo á fallanda fæti. Við þessum stjórnunarháttum verður að sporna. Rétt er að minna á að allir gera mistök einhvern tíma á starfsævinni og að umhverfi sem hvetur til skoðanaskipta  er grundvöllur nýsköpunar og þróunar þó að menn séu ekki sammála um öll atriði. Uppsagnir eru nauðsynlegar á stundum en ávallt neyðarbrauð sem er erfitt fyrir vinnuumhverfi vinnustaðarins og persónulegt áfall fyrir þann sem fyrir verður.

Kristinn Tómasson dr.med
Yfirlæknir Vinnueftirlitsins
kristinn@ver.is