Fréttir

Vinnuvernd á fjölmenningarlegum vinnustöðum

19.8.2003

Vinnueftirlitinu barst fyrir nokkru ábending frá Fjölmenningarsetrinu á Ísafirði um vaxandi vandamál á sumum vinnustöðum vegna erfiðleika í samskiptum þar sem starfsmenn eru af mismunandi uppruna. Stjórnendur og starfsmenn geta í mörgum tilvikum ekki haft samskipti á íslenskri tungu, né öðru erlendu tungumáli, þannig að eðlilegt upplýsingaflæði og samskipti geti átt sér stað. Í sumum tilvika er vitað að afleiðingar af slíku hafi leitt til eineltis.

Starfsmenn Vinnueftirlitsins hafa einnig, á síðustu árum, orðið varir þessa örðugleika í samskiptum þar sem starfsmenn eru frá mismunandi menningarheimum. Sérstaklega á þetta við um starfsgreinar eins og fiskvinnslu á landsbyggðinni (síður í Reykjavík), þar sem flest fyrirtækin eru frekar smá þ.e. kringum 10-15 starfsmenn, annan matvælaiðnað, umönnun og ræstingu.

Ákveðið var að setja af stað verkefni til að afla aukinnar þekkingar um aðstæður á fjölmenningarlegum vinnustöðum og að upplýsa stjórnendur og starfsmenn um rétt sinn og skyldur varðandi aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum. Einnig átti að efla eftirlitsaðferðir Vinnueftirlitsins á slíkum vinnustöðum. Skipaður var verkefnahópur, í honum eru starfsmenn Vinnueftirlitsins. Þau eru: Svava Jónsdóttir, Valgeir Hauksson, Guðbjörg Linda Rafnsdóttir, Þórunn Sveinsdóttir og Hanna Kristín Stefánsdóttir. Einnig er höfð samvinna við Elsu Arnardóttur framkvæmdastjóra Fjölmenningarsetursins á Ísafirði.

Markmið

Markmið með verkefninu eru að:

  • Efla þekkingu um aðstæður á fjölmenningarlegum vinnustöðum.
  • Efla eftirlitsaðferðir Vinnueftirlitsins varðandi félagslegan aðbúnað á vinnustöðum.
  • Gera leiðbeiningar og viðmið sem nýtast við eftirlit og gerð áhættumats fyrirtækja á félagslegum aðbúnaði starfsmanna.
  • Upplýsa starfsmenn og stjórnendur um ábyrgð og skyldur samkvæmt lögum nr. 46/1980.

Undirbúningur

Undirbúningur verkefnisins hófst snemma árs 2003 þegar myndaður var verkefnahópur en ákveðið var að takmarka verkefnið, til að byrja með, við valda vinnustaði á Vestfjörðum. Fyrsti áfangi verkefnisins var að afla upplýsinga um heildarfjölda starfsmanna hjá fyrirtækjum á Vestfjörðum og fjölda erlendra starfsmanna og þjóðerni þeirra í þessum fyrirtækjum. Elísabet Pálsdóttir fulltrúi á Ísafirði sá um þá upplýsingaöflun. Eftirlitsmennirnir Valgeir Hauksson og Svava Jónsdóttir heimsóttu sjö fiskvinnslufyrirtæki í lok maímánaðar og var Elsa Arnardóttir framkvæmdastjóri Fjölmenningarsetursins á Ísafirði með í nokkrum heimsóknanna. Einnig var lögregluembættið á Ísafirði heimsótt. Í heimsóknunum var fundað með stjórnendum og fulltrúum starfsmanna um vinnuverndarlögin, ábyrgð og skyldur og félagslega áhættuþætti í vinnuumhverfinu og þá sérstaklega einelti. Bæklingar Vinnueftirlitsins um einelti og Vinnuvernd á Íslandi á mismunandi tungumálum voru afhentir.

Niðurstaða

Stjórnendur og starfsmenn þessara fyrirtækja létu í ljós ánægju sína með heimsókn Vinnueftirlitsins og þær upplýsingar sem gefnar voru um einelti, orsakir og afleiðingar og hvernig hægt væri að bregðast við slíkum málum á vinnustöðum. Allir könnuðust við samskiptavandamál á sínum vinnustöðum og sums staðar hafði verið einelti í gangi. Sameiginleg niðurstaða var að með aukinni íslenskukennslu, og þá sérstaklega starfstengdri kennslu, hafi samskiptin og upplýsingaflæðið batnað á vinnustöðunum og þar með hafi andrúmsloftið einnig batnað. Stjórnendur töldu sig almennt vanta meiri leiðbeiningar um félagslega áhættuþætti (einelti) og fyrirbyggjandi ráðstafanir og þá einnig á móðurmáli starfsmanna sinna.

Niðurstaða starfsmanna Vinnueftirlitsins úr heimsóknunum var sú að þær væru árangursríkar og að góðar umræður sköpuðust á öllum vinnustöðunum. Sumstaðar voru tekin fyrir einstaka dæmi um eineltismál, sem voru í gangi, og þá var rætt um lausnir og fyrirbyggjandi ráðstafanir í þeim málum. Einnig voru eldri mál rædd sem höfðu verið leyst. Verkefnahópurinn telur mikilvægt að halda þessu verkefni áfram til að auka þekkingu og fræðslu um félagslega áhættuþætti í vinnuumhverfinu og um leið að efla eftirlitsaðferðir Vinnueftirlitsins í þessum málaflokki. Nauðsynlegt er að fá fleiri aðila, sem koma að málum erlendra starfsmanna, til samstarfs svo verkefnið verði sem árangursríkast. Þar má telja ýmsar stofnanir, félagasamtök, Samtök atvinnulífsins, starfsgreina- og stéttarfélög, fræðslusamtök og túlka.

Tillaga um framhald

Þar sem málefni erlendra starfsmanna í íslensku þjóðfélagi eru mjög fjölþætt er tillaga verkefnahópsins að kalla til fundar haustið 2003 með fulltrúum frá ofangreindum aðilum til að koma fram með hugmyndir um árangursríkt átak á árinu 2004. Einnig á að ræða aðkomu og samvinnu mismunandi stofnana og félagasamtaka að verkefninu svo fjölmenningarlegt samfélag geti grundvallast á gagnkvæmri virðingu, jafnræði, viðsýni, sveigjanleika og lýðræði.

F.h. verkefnahópsins Svava Jónsdóttir