Fréttir

Vinnuslysaáratugurinn 2001 til 2010 - dögun nýrra tíma!

3.1.2011

Nú þegar fyrsti áratugur nýrrar aldar er sannanlega liðinn hefur Vinnueftirlitið fengið 15686 tilkynningar um vinnuslys frá 1. janúar 2001 til og með 31. desember 2010. Vinnan er og á að vera grundvöllur velmegunar og vellíðanar okkar sem einstaklinga og þar með samfélagsins alls. Það eru grundvallarmannréttindi að búa við öryggi í vinnu þannig að heilsu, hvort sem er líkamlegri eða andlegri, sé ekki stefnt í voða vegna þess vinnuumhverfis sem við búum við. 
     Nýr ráðherra velferðarmála hefur farið mikinn í því erfiða verkefni að hemja kostnað vegna þjónustu við sjúka. Við blasir verulegur niðurskurður. Þessi niðurskurður á heilbrigðisþjónustu getur haft þær afleiðingar að heilsu þjóðarinnar hraki og færri dugandi hendur verði til að skapa verðmæti. 
     Við þurfum sem samfélag að horfa til raunverulegra leiða sem spara fé og skapa verðmæti til lengri tíma litið.  
     Öll þessi 15686 slys sem tilkynnt voru á tíu ára tímabili eru í eðli sínu óþörf og hefði með einum hætti eða öðrum mátt fyrirbyggja. Af þessum slysum voru 32 banaslys, 203 starfsmenn hættu starfi  óvinnufærir, 768 komu ekki til starfa fyrr en eftir 14 daga og 8791 starfsmaður var meira en þrjá daga frá vinnu vegna þessarra slysa. Upplýsingar um síðkomnar afleiðingar vinnuslysanna liggja hins vegar ekki fyrir, en ljóst má vera vegna eðli margra þeirra að þær séu umtalsverðar í vissum tilfellum. Þessi 15686 vinnuslys eru einvörðungu alvarlegustu slys nýliðins áratugar, sem eru tilkynningarskyld til Vinnueftirlitsins. Til frekari glöggvunar komu einvörðungu á árinu 2009 samkvæmt Slysaskrá Íslands, 5211 vinnuslys stór og smá til skoðunar. 
     Við getum ekki hætt að sinna slösuðum og sjúkum sem skyldi. Á sama tíma þarf raunverulegan sparnað í samfélaginu. Árangursrík leið til þess er að bæta mannréttindi og er ?vinna án vinnuslysa? mikilvægur hluti af því. Við þurfum að áhættumeta störf okkar og grípa til viðeigandi forvarna til að draga úr hættu á slysum. Skrá skal öll óhöpp og slys og tilkynna öll alvarleg slys til Vinnueftirlitsins. Leggja ber ríka áherslu á að engin slys verði í fyrirtækjum þ.e. ?núll ?slysastefna? er það eina sem er mannsæmandi. Með því leggjum við grunn að velfarnaði einstaklinga og samfélags. Gleðilegt ár!

Kristinn Tómasson, yfirlæknir
Vinnueftirlitsins