Fréttir

Vinnuslys á að tilkynna

20.2.2006

Ein af forsendum þess að hægt sé að sinna forvörnum gegn vinnuslysum er virk vinnuslysaskrá en með henni er til dæmis hægt að kanna í hvaða atvinnugreinum vinnuslys verða helst og við hvaða aðstæður. Samkvæmt lögum nr. 46/1980 skal atvinnurekandi tilkynna Vinnueftirlitinu um vinnuslys þar sem starfsmaður deyr eða verður óvinnufær í a.m.k. einn dag auk slysadagsins.

Slys, þar sem líkur eru á að starfsmaður hafi orðið fyrir langvinnu eða varanlegu heilsutjóni, skal tilkynna Vinnueftirlitinu eigi síðar en innan sólarhrings svo að vettvangsrannsókn geti farið fram. Með langvinnu eða varanlegu heilsutjóni er m.a. átt við tilvik þar sem hinn slasaði missir útlim eða hluta af útlim, beinbrotnar, fer úr lið, fær meiriháttar sár, missir meðvitund, hlýtur skemmdir á taugavef, verður fyrir alvarlegu augnslysi, innvortis meiðslum eða eitrun. Slysin skulu auk þess tilkynnt Vinnueftirlitinu skriflega innan viku, á þar til gerðu tilkynningareyðubaði sem hægt er að nálgast á heimasíðu Vinnueftirlitsins ? www.vinnueftirlit.is eða á umdæmisskrifstofum Vinnueftirlitsins víða um land.