Fréttir

Nefnd meti umfang kynferðislegrar áreitni, ofbeldis og eineltis á vinnumarkaði

29.11.2017

Félags- og jafnréttismálaráðherra hefur ákveðið að skipa nefnd til að meta umfang kynferðislegrar áreitni, kynbundinnar áreitni eða ofbeldis, auk eineltis á íslenskum vinnumarkaði. Vinnueftirlitið sinnir samkvæmt lögum eftirlitshlutverki með vinnuaðstæðum á Íslandi og undir það falla félagslegir og andlegir vinnuverndarþættir.

Fulltrúi frá Vinnueftirlitinu mun sitja í nefndinni sem fær það hlutverk að rannsaka reynslu þolenda, vitna og gerenda og skoða til hvaða aðgerða sé gripið í slíkum málum. Jafnframt mun nefndin láta kanna hvort vinnuveitendur hafi gert skriflega áætlun um öryggi og heilbrigði á sínum vinnustað og hvernig brugðist sé við þegar komi fram kvörtun um slíkt hátterni.

Vinnueftirlitið stóð fyrir kynningu á reglugerð nr. 1009/2015 um aðgerðir gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi á vinnustöðum árið 2016 meðal annars með útgáfu bæklinga um málefnið.

Hafin er vinna sem lítur að því að kynna enn frekar mikilvægi þeirra forvarna sem felast í áhættumati og viðbragðsáætlun á þessu sviði og ráðgert að afrakstur þeirra vinnu líti dagsins ljós vorið 2018.