Fréttir

Napó leggur sitt af mörkum í baráttunni gegn COVID-19

Einfalt fræðslumyndband um sóttvarnir á vinnustað

17.4.2020

Fyrsta skrefið í tilslökunum á samkomubanni vegna COVID-19 faraldursins verður stigið 4. maí næstkomandi og viðbúið að fleiri fari að mæta á sínar hefðbundnu starfsstöðvar í kjölfarið. Til að forðast frekari útbreiðslu farsóttarinnar er mikilvægt að allir sem einn haldi áfram að vera á varðbergi og hugi eftir sem áður að ýtrustu sóttvörnum.

NapoÍ meðfylgjandi myndbandi minnir teiknimyndapersónan Napó á grundvallaratriði í þeim efnum á vinnustað. Myndböndin með Napó eru án orða, hnyttin og skýr í framsetningu. Tilgangurinn er að miðla mikilvægum skilaboðum á einfaldan og upplýsandi hátt án þess að landamæri, menningarmunur eða tungumál hafi hindrandi áhrif. Myndböndin eru framleidd í samvinnu fjölda vinnuverndarstofnana en Vinnuverndarstofnun Evrópu, sem staðsett er í Bilbaó á Spáni, hefur fjármagnað þróun vefsíðunnar napofilm.net þar sem fleiri myndbönd er að finna.

Í þessu myndbandi vill Napó leggja sitt lóð á vogarskálarnar gegn kórónuveirunni illskæðu. Í anda annarra Napó-myndbanda er það stutt, aðgengilegt og hnitmiðað í stað þess að fara um víðan völl í forvörnum, þar sem auðvitað er af nægu að taka. Napó einbeitir sér að almennri áhættu – smiti frá höndum – og sýnir á sinn dæmigerða „Napó hátt“ hvernig smit getur breiðst út og til hvaða ráðstafana er hægt að grípa til að sporna gegn því.

 

Stöðvum faraldurinn