Fréttir

Móttaka kvartana og ábendinga vegna vinnuumhverfis

10.7.2018

Vinnueftirlitið tekur við ábendingum og kvörtunum um vinnustaði og vinnuumhverfi er lúta að öryggi og velferð starfsmanna. Þetta er grundvallaratriði til þess að hægt sé að sinna forvörnum og fyrirbyggjandi ráðstöfum til þess að bæta vinnuumhverfi starfsmanna og tryggja vinnuvernd.

Ákvæði 83. gr. laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum kveður skýrlega á um það að starfsmenn Vinnueftirlitsins séu bundnir þagnarskyldu um allt er varðar umkvörtun til stofnunarinnar, þ.m.t. nafn þess sem beinir umkvörtun til stofnunarinnar, og helst þagnarskylda þeirra hvað þetta varðar eftir að þeir hætta störfum hjá stofnuninni. 

Einungis er heimilt að víkja frá þessari trúnaðarskyldu þegar um er að ræða lögmætan tilgang og ekki er gengið lengra en nauðsynlegt er auk þess sem sá sem beindi umkvörtuninni til stofnunarinnar hefur veitt samþykki sitt fyrir því. Eftirlitsferð sem farin er í kjölfar ábendinga eða kvörtunar þarf á hverjum tíma að sníða að eðli hennar með velferð starfsmanna að leiðarljósi. 

Kvartanir og ábendingar til Vinnueftirlitsins þurfa þannig ekki að vera undir nafni og hefur Vinnueftirlitið tekið við slíkum kvörtunum og ábendingum vegna vinnuumhverfis til margra ára. Vinnueftirlitið kappkostar að meðhöndla slíkar kvartanir með ábyrgum hætti til að tryggja vinnuvernd í landinu.