Fréttir

MDF plötur í smíðakennslu – mögulega hættuleg efni

25.4.2018

Svo kallaðar MDF plötur (e. Medium Density Fiberboard) eru plötur sem búnar til úr trefjum sem límdar eru saman. MDF er afar nýtilegt og hægt að nota til margs konar smíða og hefur því komið í stað hefðbundins timburs í mörgum smíðaverkefnum.   

Nemendur vinna við ýmis verk í smíðastofuMargar gerðir af MDF plötum eru á boðstólnum. Meirihluti þeirra  er fyrst og fremst úr tiltölulega mjúkum viðartegundum þó til séu MDF plötur úr harðviðartrefjum. Við gerð platnanna eru ýmis bindiefni notuð til að líma trefjar saman og er það misjafnt milli tegunda borða.

Sum þeirra innihalda efnið formaldehýð sem getur verið krabbameinsvaldandi ásamt því að valda einkennum í öndunarvegi. Magn þess getur verið mismikið eftir gerð/tegund platnanna. Í MDF plötum sem ekki innihalda formaldehýð má stundum finna efnið dífenýlmetan diisocyanate (PMDI) sem einnig getur valdið öndunarfæraeinkennum en jafnframt húðeinkennum og er skráð sem mögulega krabbameinsvaldandi.

Þar sem ryk af völdum viðarins sérlega harðviðarins getur verið heilsuspillandi sem og vegna hættu af formaldehýði þá er mikilvægt að vinna með þessar plötur fari fram í vel loftræstu rými þar sem er afsog  þannig að ryk fari ekki í vit þeirra sem eru að vinna með efnið.

Nú í vetur (2018) hefur Vinnueftirlitið orðið þess áskynja að MDF plötur eru notaðar til smíðakennslu í skólum án fullnægjandi afsogs. Því vill Vinnueftirlitið beina þeim tilmælum til þeirra sem nota MDF plötur (efni) til smíðavinnu í skólum og annars staðar að það er mikilvægt að tryggja afsog frá efninu út úr rýminu sem unnið er í.

Sérstaklega skal gætt að afsogi þegar verið er að pússa eða saga MDF plötur.

  • Ef ekki er hægt að tryggja að afsog sé fullnægjandi þá skal hætta notkun efnisins.
  • Ekki er nægjanlegt að nota rykgrímur á meðan vinnsla á efninu fer fram.

Gagnvart þeim skóla þar sem mál þetta kom upp hefur verið gripið til viðeigandi ráðstafanna.

Sjá nánar http://www.hse.gov.uk/woodworking/faq-mdf.htm