Fréttir

Líðan og heilsa starfsfólks í fjármálafyrirtækjum eftir hrun

21.4.2015

Samanburður á líðan og heilsu þess starfsfólks í bönkum eftir hrun sem hélt störfum og þeirra sem misstu starf.

Ný rannsókn á vegum Vinnueftirlitsins og Háskóla Íslands, sem birtist í vísindatímaritinu Work, Employment and society, sýnir að starfsfólk sem hélt störfum í kjölfar bankahrunsins mat heilsu sína og vellíðan verri heldur en starfsfólk sem missti vinnuna. Þessi samanburður var gerður 6 mánuðum eftir bankahrunið og það voru Samtök starfsfólks í fjármálafyrirtækjum sem lögðu rannsóknina fyrir, ásamt rannsakendum.

Í rannsókninni var jákvæð vellíðan, andleg og líkamleg heilsa þessarra tveggja hópa metin. Niðurstöður sýndu að sá hópur sem mat heilsu sína og vellíðan besta voru þau sem hafði verið sagt upp en höfðu fengið nýja vinnu á þeim tíma sem rannsóknin fór fram. Karlar  sem höfðu fengið tímabundna vinnu í kjölfar uppsagna voru einnig í þeim hópi. Þeir sem héldu störfum mátu heilsu sína verri en þeir sem voru enn án atvinnu eftir uppsagnir. Sá hópur sem mat heilsu sína og vellíðan versta var sá sem hélt störfum og upplifði starf sitt ótryggt á þann veg að hann bjóst við að geta misst starfið innan árs.

Þessi rannsókn sýnir að í kjölfar mikilla breytinga á vinnustöðum, eins og þegar komið hefur til uppsagna og endurskipulagningar, getur starfsumhverfi verið hlaðið streituvöldum eins og ótta við að missa starfið eða að starfskröfur hafa aukist.

Áður hefur verið gerð rannsókn meðal starfsfólks sem hélt störfum eftir bankahrunið sem sýndi að; starfsfólk sem hafði unnið í deild þar sem samstarfsfólki var sagt upp, þau sem höfðu fengið launalækkun og þau sem höfðu flutt milli deilda eftir hrun upplifðu meiri streitu en aðrir starfsmenn bankanna. Sú rannsókn sýndi einnig að margir starfsmenn upplifðu auknar starfskröfur sem jók á vanlíðan. Einnig hefur verið gerð athugun meðal starfsfólks bankanna tveimur árum eftir hrun sem sýndi að vanlíðan var enn töluverð í bönkunum.