Fréttir
  • Hættuleg efni

Leynast gömul efni í plastumbúðum á þínum vinnustað?

9.11.2020

Á vinnustöðum er oft að finna hin ýmsu efni. Jafnvel á vinnustöðum þar sem notkun efna er ekki endilega hluti af starfseminni. Má til dæmis nefna sterk ætandi efni í ræstiherbergjum.

Efni eru keypt inn í ákveðnum tilgangi og má nefna stíflueyði sem dæmi. Síðan reynist ekki þörf fyrir þau lengur og þá daga þau oft uppi óhreyfð. Jafnvel árum saman. Þetta getur skapað hættu þar sem mörg efni sem geymd eru í plastbrúsum eða -ílátum skemma plastið smám saman. Plastið verður stökkt og brotnar við minnsta hnjask. Ekki er mælt með því að geyma efni í plastumbúðum lengur en í fimm ár.

Því miður hafa orðið slys þar sem umbúðir hafa gefið sig með þeim afleiðingum að starfsfólk hefur fengið yfir sig ætandi efni og slasast alvarlega. Ætandi efni geta valdið alvarlegum ætisárum á húð og varanlegum augnskaða, jafnvel blindu, ef þau berast í augu.

Vinnueftirlitið hvetur af þeim sökum alla vinnustaði til að yfirfara reglulega geymslur, ræstiherbergi eða önnur rými þar sem hættumerkt efni eru geymd og farga efnum sem ekki eru í notkun. Þetta á líka við á heimilum, en tekið skal fram að ekki má hella efnum í niðurföll eða henda í ruslatunnur heldur þarf að flytja þau með öruggum hætti á viðurkenndar móttökustöðvar spilliefna og er gott að leita ráðgjafar um hvernig best sé að bera sig að.

Hættumerkt efni eru merkt með rauðum tígli. Inni í tíglinum er mynd sem gefur til kynna hættuna af viðkomandi efni; ætandi, eldfimt og svo framvegis.

Vinnueftirlitið vill jafnframt minna á þá gullnu reglu að nota aldrei hættulegri efni en ástæða er til. Það er, ef hægt er að ná sama árangri með hættulausum eða hættuminni efnum á alltaf að velja þau síðarnefndu. Ef nota þarf hættumerkt efni ætti alltaf að nota viðeigandi persónuhlífar svo sem hlífðarhanska og hlífðargleraugu.

Frekari upplýsingar um hættuleg efni má nálgast hér.

Sömuleiðis e-tól sem er handhægt rafrænt verkfæri sem hjálpar vinnustöðum að finna og draga úr hættum sem tengjast hættulegum efnum á vinnustað.