Fréttir

Leiðbeiningar til starfsmanna sem vinna við þrif

25.3.2020

Covid-19_thrifÞar sem kórónuveiran, sem veldur COVID-19 sjúkdómnum, getur verið til staðar á yfirborði í nokkra daga (allt að 72 klst.) án hýsils þá er mikilvægt að þrífa svæði, sem hún gæti þrifist á, vandlega áður en þau eru tekin aftur í notkun. Gæta þarf sérstaklega að svæðum og flötum sem margir snerta eins og að hurðarhúnum, ljósrofum, handriðum og svo framvegis.

Áður en hafist er handa við þrif þarf að gæta að persónuhlífum þeirra sem þrífa. Starfsmaður á aldrei að deila sínum persónuhlífum með öðrum en þetta á sérstaklega við um hlífar sem notaðar eru á meðan þessi faraldur gengur yfir.

  • Mikilvægt er að velja aðeins viðurkenndan CE merktan búnað (vegna skorts kann undantekning að verða gefin á CE vottuninni gagnvart persónuhlífum heilbrigðisstarfsfólks þar til faraldurinn er genginn yfir).
  • Öndunargríma: Helst ætti að nota grímu með „P3“ síu en „P2“ síu að lágmarki. Best er að nota einnota grímu og farga henni á öruggan hátt eftir notkun.
  • Öryggisgleraugu eða andlitshlíf: Hafa skal í huga að þessar persónuhlífar eru oft notaðar aftur og því þarf að tryggja að þær séu þrifnar og sótthreinsaðar eftir notkun.
  • Einnota hanskar: Hafa skal í huga að hanskar geta valdið ofnæmi og velja þarf hanska vandlega með tilliti til aðstæðna, t.d. þarf að hafa í huga að aðstæður gætu valdið því að hanskar gatist auðveldlega. Ef það gerist þarf að hætta þrifum strax, þvo hendur og sótthreinsa áður en nýir hanskar eru settir upp.
  • Vatnsheldur hlífðarfatnaður: Gæta þarf að því að ermar og skálmar nái vel yfir op hanska og stígvéla eða annars skóbúnaðar til að koma í veg fyrir að vökvi leki inn.

Best er að þrífa fyrst með volgu vatni, blandað þunnri blöndu af hlutlausri sápu. Athugið að nota alltaf hreina tusku þegar þrif hefjast og koma henni í sótthreinsun/þvott eða förgun að þrifum loknum.

Við þrif á stærri flötum sem þola mikið vatn, til dæmis á iðnaðargólfum eða veggjum, skal varast að háþrýstiþvo þar sem slík þrif geta þyrlað upp óhreinindum og þannig dreift smiti um svæðið.

Eftir þrif skal sótthreinsa svæðið með sótthreinsiefni sem eyðir veirunni. Vegna þess að um nýtt afbrigði veiru er að ræða er ekki nákvæmlega vitað hvaða sótthreinsiefni eru áhrifaríkust en gera má ráð fyrir að eðli þessarar veiru sé svipað og annara skyldra veira og því æ öll algeng sótthreinsiefni að duga.

Til sótthreinsunar er best er að nota hreint (án íblöndunarefna) etanól (spritt) sem er u.þ.b. 70 % að styrkleika, nota úðabrúsa, úða létt yfir flötinn og strjúka svo yfir með hreinum klút. Þá getur verið gott að skipta um hanska áður en sótthreinsun hefst. Í einhverjum tilvikum gæti hentað að úða flötinn eða svæðið og sleppa því að þurrka yfir og láta efnið þorna. Einnig er hægt að nota klórlausn sem er u.þ.b. 0,1% að styrkleika. Algengt er að bleikiklór, sem fæst í verslunum, sé um 5% og mætti nota slíka lausn þynnta 1:50 (20 ml í 1 lítra af vatni). Hafa skal í huga að klór er ætandi og því þarf að nota öryggisgleraugu og hanska við þynninguna. Klórlausn getur líka upplitað sum efni og sérstaklega skal varast að láta klór komast í snertingu við sýru.

Eftir þrif þarf að fara varlega úr hlífðarfatnaði, gæta þess að snerta ekki ytra byrði hans og koma strax fyrir í poka sem fer í sótthreinsun, þvott eða förgun. Farga má fatnaðinum með almennu sorpi ef hann er settur í tvöfaldan tryggilega lokaðan poka og beðið í 72 klst. áður en pokinn er settur í sorpið. Þvott má þvo með almennum þvotti en gæta þarf að persónuhlífum þeirra sem sjá um þvottinn.

Nánar: