Fréttir

Kynferðisleg áreitni og ofbeldi stórt vandamál á norrænum vinnumarkaði

11.6.2020

Kynferðisleg áreitni og ofbeldi er alvarlegt vandamál á norrænum vinnumarkaði. Þetta kemur fram í nýlegri skýrslu Norrænu ráðherranefndarinnar um kynferðislega áreitni á norrænum vinnumarkaði sem ber yfirskriftina: Sexuellt trakasserad på jobbet – en nordisk forskningsöversikt.

BorgarsenaVinna við skýrsluna hófst árið 2019 undir formennsku Íslands í Norrænu ráðherranefndinni. Í henni eru teknar saman þær rannsóknir sem gerðar hafa verið á viðfangsefninu á Norðurlöndum á árunum 2014-2019. Markmið samantektarinnar var að öðlast yfirsýn yfir þær rannsóknir sem eru til og leggja í kjölfarið mat á hvar rannsóknir og þekkingu skortir. Skýrslan leiðir í ljós að víða vantar upp á þekkingu á viðfangsefninu og er sjónum beint að því hvar úrbóta er helst þörf. Vinnueftirlitið tekur undir það með Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra í formála skýrslunnar að hún sé mikilvægur liður í því að auka jafnrétti og uppræta áreitni og ofbeldi á vinnumarkaði.

Skýrslan varpar ljósi á almennan þekkingarskort á kynferðislegri áreitni í atvinnulífinu. Hún dregur líka fram hversu þýðingarmikið það er að gera þverfaglegar rannsóknir á viðfangsefninu. Hún undirstrikar jafnframt mikilvægi þess að halda áfram þeirri samvinnu sem hefur átt sér stað á milli Norðurlandanna í þeirri viðleitni að koma í veg fyrir kynferðislega áreitni á vinnustöðum. Eins og fram kemur í máli Katrínar í formála er ofbeldi bæði orsök og afleiðing mikils misréttis og ber Norðurlöndunum lagaleg og siðferðisleg skylda til að binda enda á það.

Í skýrslunni er fjallað um hvernig kynferðisleg áreitni birtist á mismunandi hátt yfir starfsævi einstaklinga í ólíkum atvinnugreinum. Í henni kemur einnig fram að afleiðingar kynferðislegrar áreitni eru alvarlegar óháð starfsgreinum, bæði fyrir þann sem fyrir henni verður og vinnustaðinn. Algengar afleiðingar eru að þolendur fara í veikindaleyfi vegna andlegs og líkamlegs álags, atvinnutækifæri þeirra skerðast og starfsmannavelta innan fyrirtækja, þar sem slíkri áreitni er leyft að viðgangast, getur orðið mikil.

Birtingarmynd kynferðislegrar áreitni er mismunandi eftir starfsgreinum og skiptir þar meðal annars máli hvort um líkamlega vinnu er að ræða eins til dæmis og hjá leikurum og íþróttafólki, vinnu sem krefst mikillar samskipta eða nálægðar við viðskiptavini eða akademíska stofnanavinnu. Skýrslan leiðir í ljós að rannsaka þarf betur ólíkar birtingarmyndir kynferðislegrar áreitni eftir starfsgreinum.

Í skýrslunni kemur einnig fram að það þarf að taka meira mið af aldri og kyni. Þá þarf að huga að minnihlutahópum í rannsóknum en í skýrslunni kemur fram að fólk sem tilheyrir minnihlutahópum tilkynnir síður um áreitni eða ofbeldi og þekkir síður réttindi sín. Eins er þörf á að skoða gerendur þar sem lítið er vitað um þá. Til dæmis hvað einkennir þá og hvað veldur því að þeir áreita eða beita ofbeldi. Einnig kemur fram að mikilvægt sé að rannsaka betur aðstæður sem valda því að kynferðisleg áreitni á sér stað á vinnustöðum.

Að mati Vinnueftirlitsins er skýrslan mikilvæg viðbót við niðurstöður rannsóknarinnar Valdbeiting á vinnustað, sem unnin var á vegum félags- og barnamálaráðherra og kom út í byrjun árs, en tilgangur hennar var að meta umfang kynferðislegrar áreitni, kynbundinnar áreitni eða ofbeldis auk eineltis á íslenskum vinnumarkaði. Ásta Snorradóttir, lektor við félagsráðgjafadeild Háskóla Íslands, fór fyrir rannsókninni en markmið hennar var ekki hvað síst að undirbyggja upplýsta umræðu um hvernig auka megi forvarnir gegn kynferðislegri og kynbundinni áreitni á íslenskum vinnustöðum.