Fréttir

Könnun WHO og ILO um heilsu og öryggi heilbrigðisstarfsfólks á tímum COVID-19

18.5.2020

Könnun um heilsu og öryggi heilbrigðisstarfsfólks á tímum COVID-19Alþjóða heilbrigðismálastofnunin (WHO) og Alþjóða vinnumálstofnunin (ILO) hafa hrundið af stað könnuninni Heilsa og öryggi heilbrigðisstarfsfólks á tímum COVID-19.

Könnunin hefur það að markmiði að greina þá áhættu sem heilbrigðisstarfsfólk er helst útsett fyrir og hvernig það ver sig fyrir þeirri hættu sem stafar af COVID-19.

Markhópur könnunarinnar er breiður og er henni jafnt ætlað að ná til sérfræðinga í vinnuvernd, smitvörnum og sálfélagslegri ráðgjöf sem og starfsfólks í beinni umönnun við sjúklinga hvort sem er hjá opinberum stofnunum eða annars staðar. Henni er sömuleiðis beint að stjórnendum og sérfræðingum í háskólasamfélaginu svo dæmi séu nefnd.

Könnunin er aðgengileg á ensku og fleiri tungumálum og tekur aðeins um 7 mínútur að svara. Svörin eru órekjanleg. Niðurstöðurnar verða notaðar til að þróa aðferðir til að bæta heilsu og öryggi heilbrigðisstarfsfólks í faraldrinum. Þeir sem málið varðar eru hvattir til að taka þátt og leggja þannig sitt af mörkum við að bæta aðbúnað heilbrigðisstarfsfólks um heim allan.