Fréttir

Hreyfing og þjálfun á vinnustöðum

24.10.2017

Stoðkerfisvandamál kosta samfélagið mikla fjármuni á ári hverju í formi veikindafjarvista, heilbrigðisþjónustu og dvínandi framleiðni. 25% vinnandi fólks í Evrópu kvartar yfir bakverkjum og 23% yfir vöðvaverkjum og eru stoðkerfisvandamál aðalástæða veikindafjarvista í Evrópu sem og Bandaríkjunum og Kanada (Murray o.fl., 2012; Punnett & Wegman, 2004). Samkvæmt tölum frá 27 Evrópulöndum er hægt að rekja 50% allra veikindafjarvista til  stoðkerfisvandamála (Bevan o.fl., 2009). Helstu áhættuþættir fyrir stoðkerfisvandamál eru annars vegar kyrrsetuvinna eins og skrifstofustörf, sem eykur aðallega áhættu á verkjum í hálsi og öxlum, sem og líkamlega krefjandi störf. Í líkamlega krefjandi störfum eru það aðallega fimm þættir sem auka áhættu á stoðkerfisvandamálum:

  1. Burður og færsla á þungum byrðum
  2. Að vinna með bak bogið og/eða snúið
  3. Að vinna með hendur fyrir ofan axlarhæð
  4. Einhæf álagsvinna
  5. Titringur

Auk þessara áhættuþátta hafa rannsóknir sýnt að líkur á stoðkerfisvanda aukast ef vissir sálfélagslegir áhættuþættir eru til staðar, þar má nefna mikið vinnuálag, andlegt álag í vinnu, skert sjálfræði, skort á félagslegum stuðningi, skerta starfsánægju, misvísandi skilaboð og vinnutengda streitu (Widanarko, Legg, Devereux, & Stevenson, 2014).

Samkvæmt tölum frá 2014 segist stór hluti vinnandi fólks finna fyrir stoðkerfisverkjum nokkrum sinnum í viku, allt frá 31% af skrifstofufólki, upp í 47% af múrurum. Rannsókn með 5000 heilbrigðisstarfsmönnum sýndi fram á að hætta á langtíma veikindafjarvistum minnkaði marktækt ef verkir minnkuðu, þó aðeins væri um að ræða litla lækkun. Þetta samband var sterkast hjá þeim sem voru með mesta verki og sýnir fram á að með því að minnka verki smávegis getur mikið unnist þegar kemur að veikindafjarvistum.

Lars L. Andersen hjá dönsku rannsóknarstofnuninni í vinnuvernd (NRCWE) er framarlega í rannsóknum á sviði þjálfunar á vinnustað og leiddi hann á dögunum NIVA (Norræna fræðslustofnunin á sviði vinnuverndar) námskeið á Hótel Sögu sem fjallaði um þjálfun og hreyfingu á vinnustaðnum. Farið var yfir nýjustu rannsóknir á sviðinu, hvernig er best að meta íhlutanir um hreyfingu og þjálfun á vinnustað, kostnaðargreiningu á slíkum íhlutunum og hvernig er hægt að þróa niðurstöður rannsókna yfir í íhlutanir sem virka á vinnustöðum. Aðalmarkmið íhlutana á þessu sviði er að auka hreyfingu, auka styrk, minnka kyrrsetu og með því draga úr stoðkerfisvanda og bæta líkamlega og andlega heilsu.

Stoðkerfisvandamál, áhættuþættir og áhrif þjálfunar

Með aldri minnkar líkamleg geta einstaklinga og aukast þannig líkurnar á veikindafjarvistum og örorku vegna stoðkerfisvandamála. Rannsóknir sýna að afleiðingar vinnuálags eru verri fyrir eldra starfsfólk og því meira sem líkamlegt álag í vinnu er því meiri líkur eru á langtíma veikindafjarvistum.

Einfaldasta leiðin til að útskýra hvers vegna vinnutengd stoðkerfisvandamál koma upp er ósamræmi milli getu og vinnuálags (e. capacity vs. demands). Þar sem vinnan gerir óraunhæfar kröfur til einstaklingsins miðað við hans getu, eykst hættan á álagseinkennum. Vinnuvernd snýr að mestu að því að breyta og bæta vinnuna og vinnuumhverfið til að brúa bilið þarna á milli, þjálfun og hreyfing getur hins vegar hjálpað einstaklingnum að takast á við verkefnin og á sama tíma bæta heilsu sína.

Rannsóknir þar sem styrktar þjálfun er skipulögð og stjórnað af fagaðilum hafa sýnt fram á jákvæð langtímaáhrif á verki, getu einstaklingsins og lífeðlisfræðilegar breytingar í vöðvum. Allt niður í 2 mínútur af styrktar þjálfun á dag geta haft jákvæð áhrif á verki, þó er mælt með að samtals sé styrktar þjálfun um klukkustund á viku samtals, burtséð frá hvernig tímanum er skipt niður. Þjálfun í hóp, nálægð búnaðar við vinnustöð, tími, þátttaka og þjálfari eru þættir sem hefur verið sýnt fram á að hafi áhrif á hvort að þjálfunaríhlutanir á vinnustöðum virki.

Þjálfunarþversögnin (e. The exercise paradox)

Það vekur fólk oft til umhugsunar þegar verið er að mælast til þess að þeir sem vinna erfiðisvinnu stundi hreyfingu og/eða styrktar þjálfun þess utan þar sem margir telja vinnuna sjálfa vera meira en nóg. Sú hreyfing sem hlýst af erfiðisvinnu veldur oft verkjum og stoðkerfisvanda en skipulögð hreyfing og þjálfun getur fyrirbyggt eða minnkað verki, þetta hefur verið kallað þjálfunarþversögnin (e. the exercise paradox). Munurinn liggur í nokkrum þáttum sem eru til staðar í erfiðisvinnu en ekki þegar þjálfun er stunduð með heilsueflingu að leiðarljósi. Þessir þættir erfiðisvinnu eru m.a. of þungt álag á vöðva og liði í hreyfingunum, of langur tími sem vöðvi og liðir eru undir álagi, of lítill hvíldartími fyrir vöðvann, of margar endurtekningar og/eða samanlögð áhrif yfir tíma (e. Cumulative effect). Hins vegar hefur ekki verið rannsakað hvað það er í erfiðisvinnu sem breytir vinnutengdum stoðkerfisverkjum í langvinna verki, hvort þeir byrji sem bráðir verkir og breytist í langvinna eða hvort þeir þróist smátt og smátt í langvinna verki er enn óljóst.

Heilsueflingaríhlutanir á vinnustaðnum

Við hönnun á íhlutun til að auka hreyfingu/þjálfun á vinnustað þarf að hafa í huga alla þá þætti sem annars vegar geta verið hvetjandi fyrir starfsmenn og vinnuveitanda, s.s. færri veikindadagar, minni verkir, færri slys, og hins vegar þætti sem geta verið hamlandi, s.s. kostnaður, tímapressa og sviti svo eitthvað sé nefnt. Þegar búið er að ákvarða hvaða þættir gætu haft áhrif er hægt að taka á þeim með viðeigandi hætti í skipulagi íhlutunarinnar. Þó að sýnt hafi verið fram á hagkvæmni vel skipulagðra heilsueflingaríhlutana á vinnustöðum í peningum talið, er mikilvægt að atvinnurekendur meti í meira mæli hluti sem ekki er hægt að setja verðmiða á, svo sem starfsánægju, vinnustaðamenningu, andlega heilsu starfsmanna o.fl.

Í dag er farið að miða í miklum mæli að starfsmannamiðaðri nálgun (e. participatory approach) -í heilsueflingu, í þessari nálgun er miðað að samtali um hvað sé áhugavert og raunhæft fyrir hvern vinnustað og hvern starfsmann. Þegar allt kemur til alls erum við öll misjöfn og það sem hentar einum vinnustað eða starfsmanni þarf ekki endilega að henta öðrum.

Steinþóra Jónsdóttir, sérfræðingur við Rannsókna- og heilbrigðisdeild Vinnueftirlitsins

Heimildir

Bevan, S., Quadrello, T., Mcgee, R., Mahdon, M., Vavrovsky, A., & Barham, L. (2009). Fit For Work ? Musculoskeletal Disorders in the European Workforce . The work foundation. London.

Murray, C. J. L., Vos, T., Lozano, R., Naghavi, M., Flaxman, A. D., Michaud, C., … Lopez, A. D. (2012). Disability-adjusted life years (DALYs) for 291 diseases and injuries in 21 regions, 1990-2010: A systematic analysis for the Global Burden of Disease Study 2010. The Lancet, 380(9859), 2197–2223.

Punnett, L., & Wegman, D. H. (2004). Work-related musculoskeletal disorders: The epidemiologic evidence and the debate . Journal of Electromyography and Kinesiology, 14(1), 13–23.

Widanarko, B., Legg, S., Devereux, J., & Stevenson, M. (2014). The combined effect of physical, psychosocial/organisational and/or environmental risk factors on the presence of work-related musculoskeletal symptoms and its consequences . Applied Ergonomics, 45(6), 1610–1621.