Fréttir

Heimsókn frá Eistlandi

9.12.2015

Dagana 23. - 26. nóvember 2015 dvöldu hjá Vinnueftirlitinu þrír starfsmenn frá Tæknieftirlitsstofnun Eistlands, (Estonia Technical Surveillance Authority, tja.ee ). Stofnunin hefur mjög breitt starfssvið, bæði stjórnsýslulega og eftirlitslega. Má þar nefna:

 • Byggingarmálefni;
 • Rafmagnsöryggi;
 • Eftirlit með varasömum efnum;
 • Eftirlit með námuvinnslu (neðanjarðarnámur og malarnámur);
 • Sprengiefni, flugeldar og skotvopnaleyfi;
 • Öryggi véla;
 • Lyftur og rúllustigar (þ.m.t. skíðalyftur);
 • Öryggi við notkun á gasi sem eldsneyti;
 • Þrýstibúnaður og
 • Öryggi járnbrauta.

Þau sem voru þarna á ferð voru Kaimer Eilo, efnaverkfræðingur og deildarstjóri, Janek Järv efnaverkfræðingur og Marike Ring efnafræðingur sem starfa á Efna- og námudeild stofnunarinnar. Þau höfðu fengið styrk til að kynna sér m.a. eftirlit með sprengiefnum og flugeldum hér á landi. Undir deildina fellur m.a. málefni er snúa að hættulegum efnum (REACH) og einnig flutningur á hættulegum farmi (ADR) og stórslysahættur af efnum (Seveso), sprengiefni, flugeldar og skotvopnaleyfi. Þau dvöldu hjá Efna- og hollustuháttadeild Vinnueftirlitsins og sá Víðir Kristjánsson deildarstjóri um skipulag heimsóknarinnar.

Fyrir utan að fá kynningu á starfsemi Vinnueftirlitsins var farið í heimsókn til eftirfarandi staða/aðila:

 • Flugeldageymsla Landsbjargar (geymsla, innflutningur og sala á flugeldum);
 • Landhelgisgeyslan/Sérverkefna- og sprengieyðingasvið (eyðing sprengja og sprengjuleit, eyðing sprengiefna og flugelda):
 • Eimskip, Sundahöfn (öryggismál hafna, innflutningur hættulegra efna, þ.m.t. sprengiefna og flugelda);
 • Hellisheiðavirkjun (orkuvinnsla);
 • Malarnámur við Vífilsfell (malarvinnsla);
 • Sprengiefnageymslur Ólafs Gíslasonar hf (öryggi við geymslu sprengiefna);
 • Lögreglustjóraembætti höfuðborgarsvæðisins, Kópavogi (skotvopnaleyfi);
 • Jarðvegsframkvæmdir á Höfðatúnsreitnum (sprengivinna).

Alls staðar var sérstaklega vel tekið á móti gestunum.

Þó tilgangur heimsóknar þeirra hafi verið að kynnast málefnum deildarinnar á Íslandi var mjög fróðlegt að kynnast fyrirkomulagi þeirra í Eistlandi. Ríkisstjórn Eistlands tók þá ákvörðun á sínum tíma og lagði mikið fé í það verkefni að setja Eistland í fremstu röð þjóða í rafrænni stjórnsýslu og virðist það hafa gengið eftir (e-Estonia, The Digital Society). Aðgangur að hvers konar skráningu er mjög opinn, t.d. um réttindi manna eins og sprengiréttindi og ADR-réttindi. Öll tilfærsla á sprengiefnum er skönnuð inn í gagnabanka Tæknieftirlitsstofnunarinnar.

Fræðast má meira um e-Estonia á e-estonia.com.