Fréttir

Heilbrigðir vinnustaðir - Meðferð hættulegra efna

30.9.2019

Vinnueftirlitið tekur þátt vinnuverndarátaki Vinnuverndarstofnunar Evrópu sem ber yfirskriftina “Heilbrigðir vinnustaðir – Meðferð hættulegra efna”. Þetta er seinna ár átaksins en í fyrra stóð Vinnueftirlitið fyrir tveimur ráðstefnum, á Akureyri og í Reykjavík, sem heppnuðust vel eins og könnun meðal gesta staðfesti.

Hættuleg efni sem starfsfólki stafar hætta af eru til staðar á fjölda vinnustaða. Slíkar aðstæður eru algengari en flestir gera sér grein fyrir sem skapar vandamál varðandi öryggi og heilsu.

Á síðustu áratugum hafa sum efni, svo sem asbest (sem veldur alvarlegum og stundum banvænum lungnasjúkdómum) og vínylklóríð (sem veldur krabbameini í lifur) verið bönnuð, notkun þeirra takmörkuð eða sett undir mjög strangt opinbert eftirlit. Engu að síður eru hættuleg efni enn eitt stærsta vandamálið þegar kemur að öryggi og heilbrigði á vinnustöðum.

Átakið er samræmt af Vinnuverndarstofnun Evrópu (EU-OSHA) með þátttöku stofnana í yfir 30 löndum, þ.m.t. Vinnueftirlitsins, auk stuðningsnets samstarfsaðila.

Meginmarkmið átaksins eru að:

  • Auka vitund um áhættu sem stafar af hættulegum efnum á vinnustað
  • Stuðla að vinnumenningu til að útrýma eða stýra áhættu
  • Auka skilning á áhættu sem tengist krabbameinsvaldandi efnum
  • Leggja áherslu á starfsmenn með sérþarfir og veikleika
  • Veita upplýsingar vegna mótunar stefnu og stuðning við viðeigandi löggjöf

Vinnueftirlitið stendur fyrir tveimur ráðstefnum í tilefni átaksins nú í október en hin formlega vinnuverndarvika EU-OSHA stendur frá 21. til 25. október. 

Fyrri ráðstefnan verður haldin á Ísafirði 9. október í Edinborgarhúsinu í Aðalstræti 7 á Ísafirði.

Þar verður áherslan á öryggismál og meðferð hættulegra efna hjá starfsmönnum í fiskeldi og fiskvinnslu. Þar verða margir fróðlegir fyrirlestrar, m.a. um átak í öryggismálum í fiskvinnslu, áhættumat með aðstoð OiRA (gagnvirkt áhættumats á netinu), öryggismál í rækjuvinnslu og í fiskeldi í sjókvíum en sérstakur fyrirlesari er Mariann Sandsund, sérfræðingur hjá rannsóknastofnuninni Sintef í Þrándheimi, sem mun fjalla um samspil vinnu og heilsu í fiskeldi, sérstaklega í köldu vinnuumhverfi. Erindið verður á ensku.

Nánar um ráðstefnuna á Ísafirði -

Síðari ráðstefnan verður í vinnuverndarvikunni eða 23. október á Grand Hóteli í Reykjavík.

Þar veður sjónum aðallega beint að rafrænum verkfærum á netinu til að auðvelda áhættumat og stýringu hættulegra efna í vinnuumhverfinu. Nýlega hefur svokallað e-tool (e-tól) verið þýtt á íslensku sem gagnast öllum fyrirtækjum við áhættustýringu fyrir hættuleg efni og einnig mun Efla kynna Ecoonlie rafræna stýringu efnamála. Þá verða öryggismál við meðferð hættulegra efna í HÍ kynnt svo og öryggi og meðferða málningarefna við bílamálun en við endum með að fá kynningu á stórslysavörnum þar sem mikið magn hættulegra efna ef geymt eins og í olíugeymslustöðum og gasstöðvum.

Nánar um ráðstefnuna í Reykjavík -

Frítt er á báðar ráðstefnurnar en skrá þarf þátttöku:

Haettuleg-efniGleymum ekki að hættuleg efni eru til staðar á nær öllum vinnustöðum.

Skaði getur hlotist af hættulegum efnum vegna skammtíma- og langtímaáhrifa og einnig vegna langvarandi uppsöfnunar í líkamanum. Það er hagur allra að bæta og stýra meðferð okkar á hættulegum efnum og finna leiðir til að draga úr notkun þeirra.