Fréttir

Hálka og persónuhlífar

25.1.2017

Nú er sá árstími kominn að hætta er á frosti. Þó svo að tíðin sé alla jafna búin að vera góð þá kom tímabil fyrir áramót þar sem gangstéttir voru hálar og mörg hálkuslys tilkynnt til Vinnueftirlitsins. Af því tilefni er mikilvægt að huga að skóbúnaði og viðeigandi persónuhlífum.

Mannbroddar eru persónuhlífar. Starfsmenn hafa rétt á því að fá persónuhlífar við störf sín.  Atvinnurekandi á að afhenda starfsmönnum persónuhlífar. Hann þarf að gera áhættumat til að meta þörfina fyrir persónuhlífum og hvaða gerð af persónuhlífum henta starfinu og aðstæðum.

Það er mikill munur á gerð og eiginleikum mannbrodda, það er nauðsynlegt að gera áhættumat og meta hvaða mannbroddar hæfa því starfi og aðstæðum sem unnið er í. Sumir mannbroddar eru hálir á hörðu undirlagi t.d. á flísum og henta því ekki við þau skilyrði.

Mannbroddarnir eru ætlaðir til mismunandi nota og mikilvægt er að velja rétt. Það skiptir ekki máli hvort mannbroddarnir eru seldir sem innanbæjar eða útivistarmannbroddar. Það á að velja þá sem henta við þær aðstæður sem unnið er í.

Það eru margir að selja mannbrodda hér á landi og einnig er hægt að kaupa þá  erlendis frá. Úrvalið af mannbroddum er töluvert og Vinnueftirlitið getur ekki ráðlagt hvaða mannbrodda á kaupa þar sem fyrirtæki þurfa að velja mannbrodda fyrir þær aðstæður sem starfsmaðurinn er að vinna við.

Þessar myndir* sýna mismunandi tegundir af mannbroddum og eru hugsaðar sem lítið sýnishorn af öllu því úrvali sem til er af mannbroddum og er því mikilvægt fyrir fyrirtæki að kynna sér úrvalið og velja mannbrodda sem henta starfinu.

Ýmsar gerðir af mannbroddum
* Myndir af mannbroddum fengnar af vefsíðum söluaðila með þeirra leyfi.