Fréttir

Góðir stjórnunarhættir lykilatriði í forvörnum gegn einelti og áreitni á vinnustað

25.7.2017

Árangursríkasta vopnið gegn óviðeigandi hegðun á vinnustöðum eru góðir stjórnunarhættir en mikilvægt er að að bæði starfsmenn og stjórnendur geri sér grein fyrir því að óviðeigandi hegðun á ekki að líðast og láti vita ef slíkt kemur upp á vinnustað. Langur tími getur liðið frá því að þolandi áttar sig á aðstæðum og er tilbúinn til þess að ræða óviðeigandi framkomu í sinn garð. Mikilvægt er að allir vinnustaðir og hagsmunaaðilar kynni sér þau úrræði sem komið geta í veg fyrir að óviðeigandi hegðun eigi sér stað.

Vinnueftirlitið hefur samkvæmt lögum eftirlit með sálfélagslegum þáttum á vinnustöðum hér á landi. Óviðeigandi hegðun getur orsakað mikla vanlíðan þeirra sem fyrir því verða og lítur Vinnueftirlitið slík mál alvarlegum augum. Atvinnurekendur bera ábyrgð á gerð áætlunar um öryggi og heilbrigði á vinnustað samkvæmt lögum og einnig að slík áætlun sé kynnt og henni fylgt eftir á vinnustaðnum.

Færst hefur í vöxt að fyrirtæki leiti til viðurkenndra þjónustuaðilar við gerð áhættumats um öryggi og heilbrigði á vinnustöðum en um slíka þjónustu gildir reglugerð nr.730/2012 um þjónustuaðila og sérfræðinga sem veita atvinnurekendum þjónustu við gerð áætlana um öryggi og heilbrigði á vinnustöðum .

Í reglugerð nr.1009/2015 um aðgerðir gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi á vinnustöðum kemur fram hvernig standa skuli að forvörnum og aðgerðum í samræmi við skriflega áætlun um öryggi og heilbrigði á vinnustað, komi fram kvörtun, ábending eða grunur um slíka hegðun. Hægt er að nálgast bæklinga og fræðsluefni um félagslegt og andlegt vinnuumhverfi hér á vefnum undir Fræðslu- og leiðbeiningarit .
 
Einstaklingar upplifa á mismunandi hátt hvað er óviðeigandi í samskiptum og því er mjög gagnlegt á vinnustöðum að setja stefnu um samskiptamenningu vinnustaðarins.

Í slíkri stefnu þarf að koma fram að lágmarki: 

  • Að óheimilt er að leggja starfsfólk í einelti á vinnustað, áreita kynferðislega, áreita á grundvelli kyns eða beita öðru ofbeldi.
  • Í hverju forvarnir vinnustaðarins gegn einelti, áreiti og ofbeldi felast.
  • Lýsing á viðbragðsáætlun vinnustaðarins, eins og hvern á að láta vita um óviðeigandi hegðun og í hvaða farveg mál eiga að fara.
  • Hvernig vinnuaðstæðum verði háttað meðan á meðferð máls stendur.
  • Hvernig brugðist verði við svo að óviðeigandi hegðun endurtaki sig ekki.