Fréttir

Fyrsta netnámskeið Vinnueftirlitsins fer vel af stað

27.4.2020

Góð ráð til stjórnenda í fjarvinnuVinnueftirlitið býður nú upp á netnámskeið fyrir öryggistrúnaðarmenn, öryggisverði og þá sem hafa áhuga á að auka þekkingu sína á vinnuverndarmálum. Fyrsta námskeiðið hófst mánudaginn 20. apríl síðastliðinn og eru þátttakendur 31 talsins. Næstu námskeið hefjast 4. maí, 18. maí og 1. júní næstkomandi og er hvert námskeið aðgengilegt þátttakendum á netinu í eina viku. 

Það tekur um það bil tólf klukkustundir að fara í gegnum námskeiðið en hægt er að skipta því upp að vild og taka það á þeim tíma sem hverjum og einum hentar. 

Á námskeiðinu er farið yfir alla helstu málaflokka sem varða vinnuumhverfi starfsmanna svo sem hávaða, lýsingu og inniloft, efni og efnaáhættur, öryggi véla og tækja, líkamlega áhættuþætti, félagslega áhættuþætti, heilsuvernd á vinnustað, vinnuslys, slysavarnir og gerð áhættumats. Þá eru vinnuverndarlögin kynnt og farið yfir hlutverk öryggistrúnaðarmanna og öryggisvarða. 

Ávinningur af námskeiðinu er aukin þekking á vinnuverndarmálum og tækifæri til að bæta hjá sér vinnuumhverfið, fækka slysum og veikindadögum og stuðla almennt að betri líðan starfsmanna.

Námskeiðið er unnið í samstarfi við IÐUNA fræðslusetur. Skráðir þátttakendur fá sendar upplýsingar til að komast inn á námskeiðið og fá þar aðgang að námsgögnum. 

Vinnueftirlitið býður einnig upp á frumnámskeið fyrir minni vinnuvélar í fjarkennslu. Kennslan fer fram í gegnum teams-fjarfundarkerfið en ólíkt netnámskeiðunum er kennt á fyrirframákveðnum dögum. Námskeiðin eru kennd á íslensku, ensku og pólsku. Þá er boðið upp á fjarkennslunámskeið í líkamsbeitingu við vinnu. Annars vegar námskeið um líkamsbeitingu við þjónustustörf og hins vegar námskeið sem ber yfirskriftina Góð líkamsbeiting – gulli betri. Eins er boðið upp á ýmis efna- og öryggisnámskeið í fjarkennslu.

Skráning og yfirlit yfir næstu net- og fjarkennslunámskeið má finna hér:  https://skraning.ver.is/