Fréttir

Fréttatilkynning frá Vinnueftirlitinu

18.12.2017

Atvinnurekanda ber lagaleg skylda til að skipuleggja forvarnir gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi á vinnustað og bregðast við ef slíkt kemur upp.

Í ljósi #METOO umræðunnar vill Vinnueftirlitið árétta að samkvæmt lögum um vinnuverndarstarf ber atvinnurekanda að greina áhættuþætti eineltis, kynferðislegrar áreitni, kynbundinnar áreitni og ofbeldis á vinnustaðnum og gera skriflega viðbragðsáætlun á því sviði.

KennslustofaÁætlunin skal meðal annars innihalda upplýsingar um til hvaða aðgerða skuli gripið í því skyni að koma í veg fyrir óæskilega háttsemi. Einnig skal koma fram hvert starfsmenn geti leitað og hvernig aðgerðum skuli háttað komi fram kvörtun, ábending eða rökstuddur grunur um einelti, kynferðislega áreitni, kynbundna áreitni eða ofbeldi á vinnustaðnum.

Í áætluninni skal einnig koma fram hvernig vinnuaðstæðum á vinnustað skuli háttað meðan á meðferð máls stendur, hvernig haga skuli upplýsingagjöf innan vinnustaðarins, þ.m.t. til hlutaðeigandi starfsmanna og hvernig fara skuli með upplýsingar og gögn sem tengjast meðferð máls, meðal annars að teknu tilliti til laga um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga.

Atvinnurekandi skal bregðast við eins fljótt og kostur er

Í Reglugerð nr. 1009/2015 er kveðið á um skyldur atvinnurekanda í málum sem þessum og brýnt er að allir aðilar á vinnumarkaði þekki skyldur sínar á þessu sviði. Atvinnurekanda ber skylda til að láta einelti, kynferðislega áreitni, kynbundna áreitni eða ofbeldi á vinnustað ekki viðgangast á vinnustað og skal hann gera starfsmönnum ljóst með skýrum hætti að slík hegðun sé óheimil.

Við meðferð máls skal atvinnurekandi sýna varfærni og nærgætni í aðgerðum sínum með virðingu og einkahagi hlutaðeigandi starfsmanna í huga, meðal annars með því að veita ekki óviðkomandi aðilum upplýsingar um mál og tryggja að utanaðkomandi aðilar sem kunna að koma að meðferð máls geri slíkt hið sama. Atvinnurekandi skal bregðast við eins fljótt og kostur er þegar honum berst kvörtun eða ábending um einelti, kynferðislega áreitni, kynbundna áreitni eða ofbeldi á vinnustað.

Vinnueftirlit ríkisins hefur eftirlit með framkvæmd vinnuverndarlaga

Starfsmaður sem telur sig hafa orðið fyrir einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni eða ofbeldi á vinnustað eða hefur rökstuddan grun eða vitneskju um slíka hegðun á vinnustað skal upplýsa atvinnurekanda eða vinnuverndarfulltrúa vinnustaðarins um það, enda sé ekki gert ráð fyrir að viðkomandi starfsmaður upplýsi annan aðila um það samkvæmt skriflegri áætlun. Í því tilviki skal starfsmaðurinn jafnframt vera reiðubúinn að skýra mál sitt nánar.

Ítarefni:

Vinnueftirlit ríkisins hefur eftirlit með framkvæmd vinnuverndarlaga og má finna nánari upplýsingar um lög og reglugerðir auk hjálpartækja við gerð áhættumats og skriflegrar áætlunar á heimasíðu Vinnueftirlitsins.