Fréttir
  • Setstaða

Fræðsluátak um líkamsbeitingu við skrifstofuvinnu

1.10.2020

Fræðsluátaki um góða vinnuaðstöðu og líkamsbeitingu við skrifstofuvinnu var hleypt af stokkunum á facebook-síðu Vinnueftirlitsins í dag. Er það upptaktur að vefráðstefnu Vinnueftirlitsins „Meira vinnur vit en strit“ Vinnuvernd er allra hagur – hæfilegt álag - heilbrigt stoðkerfi, sem verður haldin 19. nóvember næstkomandi.

Ráðstefnan er liður í tveggja ára samstarfsverkefni Vinnueftirlitsins, félagsmálaráðuneytisins, samtaka aðila vinnumarkaðarins og VIRK sem ber yfirskriftina „Vinnuvernd er allra hagur – hæfilegt álag – heilbrigt stoðkerfi 2020-2022." Markmið ráðstefnunnar er að varpa ljósi á þann víðtæka stoðkerfisvanda sem vinnandi fólk um heim allan glímir við þrátt fyrir hversu mikið er vitað um mikilvægi góðrar líkamsbeitingar og áhrif stoðkerfisvanda á heilbrigðiskerfið. Markmiðið er sömuleiðis að benda á lausnir.

Góðu fréttirnar eru að við höfum sjálf mikið um það að segja hvernig við beitum líkamanum og hvernig við hönnum vinnuumhverfi okkar. Af þeim sökum langar okkur hjá Vinnueftirlitinu að miðla góðum og gagnreyndum ráðum varðandi góða vinnuaðstöðu og líkamsbeitingu við skrifstofuvinnu. Við ætlum okkur að birta daglega fróðleiksmola á facebook-síðu stofnunarinnar fram að ráðstefnunni og eru áhugasamir hvattir til að fylgjast með og deila af vild.