Fréttir

Fjölsótt ráðstefna Vinnuverndarvikunnar

26.10.2016

Árleg ráðstefna Vinnuverndarvikunnar fór fram fimmtudaginn 20. október á Hilton Reykjavík Nordica. Yfirskrift ráðstefnunnar var Vinnuvernd alla ævi og áherslan í ár var á ungmenni á vinnumarkaði. Ráðstefnan var fjölsótt og voru þátttakendur alls um 150, þar af tóku 40-50 manns þátt í gegnum fjartengingu. Það var Eygló Harðardóttir ráðherra félags- og húsnæðismála sem setti ráðstefnuna.

Að þessu sinni var fenginn erlendur fyrirlesari, Pete Kines sérfræðingur hjá Dönsku rannsóknarstofnuninni í vinnuvernd, sem fjallaði um „Núllslysasýn“ fyrirtækja og hvernig hún getur stuðlað að öruggu og heilbrigðu vinnuumhverfi alla starfsævina, sem skilar öllum ávinningi.
Margrét María Sigurðardóttir umboðsmaður barna fjallaði um börn og vinnuvernd og Þorsteinn Guðmundsson grínisti sagði frá spaugilegum hliðum vinnuverndar.

Eftir hlé sögðu þau Jökull Smári Jakobsson og Kristín Ólafsdóttir frá reynslu sinni af vinnuvernd og störfum á vinnumarkaði frá sjónarmiði ungs fólks, sem var einkar athyglisvert.
Guðmundur Þór Sigurðsson, sérfræðingur hjá Vinnueftirlitinu fjallaði um þá reglugerð sem gildir  um vinnu barna og unglinga undir 18 ára aldri og fór yfir vinnuslysatíðni ungs fólks.

Ingi Bogi Bogason aðstoðarskólameistari sagði frá því hvernig Borgarholtsskóli tengir vinnuvernd við nám framhaldsskólanema og Fanný Bjarnadóttir framkvæmdastjóri mannauðssviðs Toyota fjallaði um vellíðan til árangurs og lýsti því hvernig Toyota tekur mið af vinnuvernd á ýmsum sviðum í sínum rekstri.

Að lokum dró forstjóri Vinnueftirlitsins Eyjólfur Sæmundsson saman efni ráðstefnunnar.
Margt áhugavert kom fram á ráðstefnunni og umræður líflegar.

Ráðstefna næsta árs sem fyrirhuguð er í október árið 2017 ber einnig yfirskriftina Vinnuvernd alla ævi en þá verður sjónum beint að eldri starfsmönnum.

Þeir sem áttu þess ekki kost að taka þátt geta horft á ráðstefnuna og skoða glærur fyrirlesaranna á vefsíðu hennar » http://bit.ly/vinnuverndarvikan2016