Fréttir

Fjöldi fjarkennslunámskeiða í boði

7.5.2020

Góð ráð til stjórnenda í fjarvinnuVinnueftirlitið býður nú upp á fjölda fjarkennslunámskeiða og fer kennsla fram í gegnum Teams-fjarfundakerfið. Um er að ræða ýmis vinnuvélanámskeið, vinnuverndarnámskeið og efna- og öryggisnámskeið.

Á meðal námskeiða á döfinni má nefna námskeiðið Vinna í lokuðu rými sem fer fram 14. maí næstkomandi. Þar verður fjallað um þær hættur sem geta skapast við vinnu í lokuðu rými og mikilvægi forvarna og viðbragðsáætlana. Þann 19. maí næstkomandi verður svo haldið þriggja tíma Asbestnámskeið fyrir þá sem hyggjast vinna við tilkynningaskylt asbestniðurrif og 8. - 12. júní verður haldið Almennt sprengiefnanámskeið sem er ætlað þeim sem vilja öðlast réttindi til að fara með sprengiefni og annast sprengivinnu.

Meðal annarra fjarkennslunámskeiða má nefna námskeiðið Góð líkamsbeiting gulli betri sem verður kennt 15. maí næstkomandi.

Vinnueftirlitið býður einnig upp á Frumnámskeið fyrir minni vinnuvélar í fjarkennslu en þau eru kennd á íslensku, ensku og pólsku.

Þess má jafnframt geta að Vinnueftirlitið fór nýverið af stað með sérstök netnámskeið fyrir öryggistrúnaðarmenn, öryggisverði og þá sem hafa áhuga á að auka þekkingu sína á vinnuverndarmálum.
Næstu námskeið hefjast 18. maí og 1. júní næstkomandi og er hvert námskeið aðgengilegt þátttakendum á netinu í eina viku.